Ástir samlyndra feðga á framsókn

Ég ólst upp í höfuðvígi Framsóknarflokksins, í Mývatnssveit á Norðurlandi. Vestan vatnsins, aðeins nokkra kílómetra frá ættaróðalinu í Vogum, hafði bóndi nokkur á Grímsstöðum, árið 1882 átt hvað mestan þátt í því að fyrsta kaupfélagið innan samvinnuhreyfingarinnar, Kaupfélag Þingeyinga, var stofnað að Þverá í Laxárdal, steinsnar frá Mývatnssveit. Kaupfélagið og framsóknarmennskan voru helstu undirstöður bernskunnar. Ef kaupa átti sjónvarp var hringt í kaupfélagið. Ef kaupa átti banana var farið í kaupfélagið. Ekki aðrar búðir til.

Pabbi var mikill framsóknarmaður sem og flest hans systkini. Við áttum reikning í kaupfélaginu, þurftum ekki að borga fyrir vöruna með seðlum heldur voru viðskiptin, samanburður innleggja og úttektar, stillt af reglulega. Við vorum með kýr og mjólkin var sótt og fór beint inn í KÞ. Í sveitinni bjuggu bara tveir kratar og þrír kommúnistar að talið var. Ég lærði snemma að þar færi veikt eða hættulegt fólk! Íhaldið mátti umbera.

Grasið í sveitinni var framsóknargrænt, allan ársins hring og kyrrð yfir flestu. Mesta spennan skapaðist á kosninganóttum þegar allt stóð og féll með því að framsóknarmenn fengju eins marga þingmenn og hægt var að fá á Norðurlandi eystra, í okkar kjördæmi. Ég fékk stundum að vaka fram á nótt með pabba þegar kosið var til Alþingis. Hann sýndi þá meiri tilfinningar en alla aðra daga ársins. Honum  þótti svo óskaplega vænt um flokkinn sinn og samvinnuhugsjónina að stundum mátti sjá tár á hvarmi þegar vel gekk. Enda Jónas frá Hriflu fæddur í aðeins 70 kílómetra fjarlægð frá okkar heimili. Vitaskuld deildi ég ást pabba á Framsóknarflokknum. Tvær leiðir voru í boði til að gera sig gildandi í Vogum. Önnur var að þekkja kindurnar með nöfnum. Hin var að elska Framsóknarflokkinn. Ég féll alla daga á fyrra prófinu en tók ofan húfuna þegar Óla Jó brá fyrir í sjónvarpinu.

Það er gott að pabbi skyldi ekki lifa þann dag að sjá hvernig þeir sem hann studdi áður, svo sem Finnur Ingólfsson, afhjúpuðust í Kastljósi gærkvöldsins.

Nú er búið að birta mynd á facebook þar sem nokkur orð Jónasar frá Hriflu eru rifjuð upp árið 1913, þremur árum áður en Framsóknarflokkurinn var stofnaður. Þar segir Hriflu-Jónas meðal annars: \"Við megum ekki gleyma því, að í landinu hefur myndast hópur fjárglæframanna, sem aðalega gera sér að atvinnu að stofna til félaga, sprengja þau og hirða molana.\"

Þetta hafði Hriflu-Jónas að segja um Finn Ingólfsson og félaga. Árið 1913!

Og ég er nokkuð viss um að pabbi hefði sagt sig frá ástum við Framsóknarflokkinn í dag ef hann hefði lifað að sjá Kastljós gærkvöldsins.

Björn Þorláksson