Ekki-flokkur sigmundar davíðs

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson virðist seint ætla að sætta sig við þá staðreynd að flokkur hans hafnaði honum í lýðræðislegu formannskjöri á síðasta ári eftir að hann hraktist úr embætti forsætisráðherra vegna fjármálahneykslis tengt skattaskjólinu á Tortóla.
 
Nú er hann að stofna einhverskonar selskap sem hann kallar \"framfarafélag\" og leggur áherslu á að EKKI sé um stjórnmálaafl að ræða heldur einhvers konar \"hugveitu\" með óljós verkefni og engin markmið önnur en þau að skapa Sigmundi vettvang til að fá útrás fyrir gremju sína og svekkelsi hins sigraða.
 
Morgunblaðið slær þessari ekkifrétt upp á forsíðu og leggur heila blaðsíðu undir viðtal við Sigmund. Dekur Moggans við þennan fallna formann vekur jafnan furðu.
 
Nú er Sigmundur loks búinn að finna sökudólgana sem hann kennir um fall sitt í formannskosningum sl. haust. Það eru fyrrverandi formenn Framsóknar sem bera þá ábyrgð. Ekki Sigmundur sjálfur með háttsemi sinni og Tortólaviðskiptum. Enn á ný er staðfest að Sigmundur Davíð sér ekki bjálkann í auga sínu, einungis flísina í auga náungans.
 
Að mati Sigmundar eru fyrrverandi formenn Framsóknar, þau Jón Sigurðsson og Valgerður Sverrisdóttir, vonda fólkið.
En hann gleymdi Guðna Ágústssyni fyrrverandi formanni. Hvers á hann að gjalda? Og hvað um Höskuld - var hann ekki einu sinni formaður Framsóknar í 2 mínútur?
 
Þetta einkennilega útspil Sigmundar Davíðs tryggir áframhaldandi ófrið og illdeilur í Framsóknarflokknum. Flokkurinn er í pattstöðu sem torvelt verður að rjúfa og situr þar trúlega fastur lengi enn.
 
Andstæðingar Framsóknar gleðjast á meðan flokknum blæðir í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, riddara af Tortóla.
 
 
rtá.