Ekkert lím í samfylkingunni

Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingar, gerir sér vonir um að Samfylkingin geti orðið “límið” í nýrri vinstri stjórn Pírata, VG, BF og Samfylkingar. Hann lítur á sinn gamla flokk sem miðdepil slíkrar stjórnar og telur að Samfylkingin yrði sáttasemjari þessa samstarfs.

Orðrétt segir Mörður í grein sem hann birti á Eyjunni:  “…………. alstaðar er S í miðjunni, á sér samræðuflöt við alla hina flokkana og getur orðið miðlari mála þegar fer að hitna í kolunum. Hún getur gefið nýju stjórninni hinn stefnulega kjarna, og myndað límið sem þarf í samstarfið.”

Með þessum orðum finnst Dagfara Mörður ofmeta Samfylkinguna stórlega. Flokkurinn hefur enga burði lengur til að miðla málum eða leiða samstarf. Það er liðin tíð. Samfylkingin var með stóran þingflokk þegar Mörður sat á Alþingi árin 2009 til 2013. Þá var hann í stöðu til að deila og drottna. En ekki lengur. Í kosningunum 2013 tapaði Samfylkingin 56% af fylgi sínu og 11 þingmönnum sem er trúlega Íslandsmet. Við það féll Mörður út af þingi.

Nú stefnir í enn meira fylgistap hjá Samfylkingunni. Skoðanakannair sýna að flokkurinn er við það að falla út af Alþingi Íslendinga. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var miðvikudagsmorgun fengi Samfylkingin 6% fylgi og 4 þingmenn kjörna. Tapaði 5 þingmönnum frá síðustu kosningum og samtals 16 þingmönnum frá kosningunum 2009. Það má því litlu muna að Samfylkingin fari niður fyrir 5% mörkin og fái engan mann kjörinn. Það má því ekkert fara úrskeiðis hjá flokknum þann stutta tíma sem eftir lifir fram að kjördegi ef hans eiga ekki að bíða þau örlög að þurrkast út af Alþingi.

Flokkur sem á engan þingmann kemur ekki að myndun ríkisstjórnar. Það veit Mörður mæta vel.

Flokkur sem nær einungis lágmarksfylgi og kemur 3 eða 4 fulltrúum sínum á Alþingi mun ekki gegna neinu lykilhlutverki við myndun ríkisstjórnar. Hann mun ekki “líma\" neitt saman.

Tími Samfylkingarinnar kom árið 2009 - og fór nokkru síðar. Er ekki tími Samfylkingarinnar liðinn?