Draumspaka íhaldskonan í þingholtunum rýnir í næstu stjórn

Dagfari þekki fullorðna íhaldskonu í Þingholtunum sem getur spáð fyrir um fréttir næstu vikna. Hún flíkar þessum eiginleika ekki mikið en hefur stundum látið sitthvað flakka, vinum og vandamönnum til skemmtunar. Æði oft hefur hún haft rétt fyrir sér.

 
Dagfari minnist þess að hún hafi verið búin að spá því með nokkurra vikna fyrirvara að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segði af sér sem forsætisráðherra í apríl sl. og kæmist í heimspressuna fyrir vikið. Strax um síðustu áramót hélt hún því fram að Guðni Th. yrði næsti forseti Íslands og loks fullyrti hún að íslenska landsliðið færi með sigur af hólmi í viðureign við England á EM í knattspyrnu. 
 
Allt þetta gekk eftir. Og nú hefur hún trúað vinum sínum og nánustu ættingjum fyrir því hvernig hún ræður í úrslit kosninganna og hvernig næsta ríkisstjórn komi til með að líta út:
 
Íhaldskonan í Þingholtunum telur að þingmenn muni skiptast svona að kosningum loknum: Sjálfstæðisflokkur fær 17 þingmenn og kjörfylgi í kringum 25% sem er heldur betra en það sem minnst hefur verið í kosningum. En það var árið 2009. Þá fékk flokkurinn 23,7%. Hún telur að Píratar komi næstir með 11 þingmenn, þá VG með 10, Viðreisn og Framsókn fá 9 þingmenn hvor flokkur, Björt framtíð verður með 4 og Samfylkingin einungis 3 þingmenn og verður mjög nálægt því að falla út af Alþingi. Sleppur þó naumlega.
 
Hún bendir á að þessi niðurstaða bjóði upp á nokkra kosti til myndunar ríkisstjórnar, þó ekki fjögurra flokka vinstri stjórnar eins og lagt var á ráðin um. 
 
Niðurstaða hennar er þessi: Mynduð verður ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks sem fær forsætisráðherra, Viðreisnar sem fær fjármálaráðherra og Vinstri grænna sem fá utanríkisráðherra og einnig forseta Alþingis. Á bak við þessa stjórn verður stuðningur 36 þingmanna. Ríkisstjórnin verður farsæl og situr út kjörtímabilið að hennar mati.
 
Þá er bara að sjá hvort konan reynist nú eins forvitur og oft áður.