Draumagarðurinn reis upp á þremur vikum

Þegar kemur að því að hanna draumagarðinn er enginn betur til þess fallinn en Björn Jóhannsson landslagsarkitekt hjá Urban Beat. Sérhæfing hjá Urban Beat liggur í garðahönnun og hefur Björn verið að hanna garða síðan á síðustu öld og er eini landslagsarkitektinn sem hefur gefið sig algjörlega að slíkum verkefnum. Björn er jafnframt í góðu samstarfi við Eirík Garðar Einarsson hjá Garðaþjónustunni þegar kemur að framkvæmdinni sjálfri til að láta draumagarðinn verða að veruleika eftir hönnun Björns. Sjöfn Þórðar hefur verið að fylgjast með framkvæmdum þeirra félaga í sumar í þættinum Matur og Heimili og fær nú að sjá nýjasta verk þeirra.

Alls ekki fyrir löngu síðan fengu þeir þá áskorun að hanna og útbúa draumagarð á örskömmum tíma hjá konu einni sem átti þá ósk heitasta að geta haldið uppá stórafmæli sitt í draumagarðinum. Á þremur vikum tókst þeim að uppfylla ósk hennar, sem var í raun kraftaverk miðað við tímann sem þeir höfðu til aflögu. „Þessi garður var einn frumskógur og á mörgu að taka og það má með sanni segja að hér hafi orðið stórbreyting,“segir Eiríkur hjá Garðaþjónustunni.

M&H Björn Jóhanns & Sjöfn Þórðar 2.jpeg

Fallegt og rómantískt útisvæði með eldstæði sem yljar og gleður.

Eftir að hafa tekið garðinn í gegn í samráði við garðeigendur er kominn fallegur garður þar sem hvert einasta svæði og hvert horn er nýtt til hins ýtrasta. „Hér er um að ræða stóran garð í funkisstíl í bland við rómantík og hlýleika. Við erum ennþá að leika okkur með plöntuvalið og finna hvaða tegundir henta best miðað við veðurfar og með tilliti til skjóls,“segir Björn Jóhannsson sem nýtur hvers augnabliks þegar kemur að garðhönnun.

Sjöfn Þórðar fær að sjá útkomuna hjá þeim félögum í þættinum Matur og Heimili í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00 á Hringbraut.

M&H Björn Jóhanns og Sjöfn Þ.jpeg

Heitur pottur, útistofa, kampavínsveggur og pergólur skreyttar lýsingu allt til alls og stækkar heimilið til muna.