Dramb er falli næst

Ólafía B. Rafnsdóttir var felld úr formannsstóli VR og gengur niðurlægð frá borði. Ragnar Þór Ingólfsson hlaut 63% atkvæða en hún einungis 37%.

Kjörsókn var léleg að vanda, einungis 17% en félagsmenn eru yfir 33 þúsund.

Hroki felldi Ólafíu. Hún trúði því að hún væri ósnertanleg eftir að hafa verið endurkjörin formaður fyrir 2 árum. Þá hóf hún að skara eld að eigin köku og hækkaði laun sín um 45% á meðan félagsmenn VR fengu 12% hækkun.

Verkalýðsleiðtogi sem hagar sér svona ógætilega og reynist svona ósvífinn hlýtur að eiga stuttan valdaferil eftir.
Sú varð reyndin í tilviki Ólafíu. Mótframbjóðandinn sá veikleika hennar og refsaði henni grimmilega.

Margir gleðjast yfir óförum Ólafíu vegna þess að hún kom því miður valdsmannslega fram við fólk og sýndi hroka. Þannig hrakti hún flesta yfirmenn á skrifstofu VR úr starfi. Einn þeirra kærði hana fyrir einelti sem fór fyrir dómstóla.

Ólafía varð varaforseti ASÍ og einhverjir litu á hana sem vonarstjörnu í verkalýðshreyfingunni. En það á ekki lengur við. Ólafía er fallin. Hennar tími í forystunni er liðin.

Hún kveður nú fínu skrifstofuna sína hjá VR og góðu ofurlaunum sem hafa numið 1,5 milljónum króna á mánuði.

Skyldu fyrirtæki vilja ráða hana á þeim launum?

Dagfari á ekki von á því.