Dræm eftirspurn eftir föllnum sjöllum

Áfram heldur vandræðagangur með að koma fyrrum þingmönnum og ráðherrum Sjalfstæðisflokksins fyrir i mikilvægum störfum. Vitað er að Hanna Birna, Ragnheiður Elin og Illugi hafa knúið á um að fá stöður í kerfinu eftir að þau hrökkluðust úr ráðherrastólum og stjórnmálum. Ekki hefur þvi verið sinnt nema varðandi einhver stjórnarsæti en ekki störf. Þannig virðist t.d. ekki vera vilji til að skipa þau í stöður sendiherra eins og algengt hefur verið með fyrrum stjórnmálamenn úr öllum flokkum.

Um síðustu áramót gekk mikið á þegar viss öfl í Sjálfstæðisflokki og Framsókn beittu sér harkalega fyrir því að koma Sigurði Kára Kristjánssyni, fyrrverandi þingmanni, í stöðu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Það tókst ekki því ákveðið var að velja faglega í stöðuna og varð Halldór Benjamin Þorbergsson fyrir valinu. Flestum þykir að vel hafi tekist til.

Eftir að stjórn Samtaka iðnaðarins ákvað að segja Almari Guðmundssyni upp starfi framkvæmdastjóra, fóru sömu öfl af stað til að gera aðra tilraun til að koma föllnum stjórnmálamanni úr Sjálfstæðisflokknum í stóra stöðu í Húsi atvinnulífsins. Nú var látið ógert að viðra Sigurð Kára en þess í stað reynt að koma Illuga Gunnarssyni, fyrrverandi ráðherra, í starfið. Það tókst ekki enda var eftirspurn eftir pólitískum fallista afar dræm.

Samtök iðnaðarins fóru sömu leið og Samtök atvinnulífsins. Þau ákváðu að velja faglega í stöðuna. Sigurður Hannesson varð fyrir valinu en hann hefur getið sér gott orð fyrir farsæl störf á fjármálamarkaði og gegndi auk þess lykilhlutverki sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar varðandi afnám hafta og samninga við þrotabú föllnu bankanna. Sigurður er afburðamaður sem nýtur virðingar í samfélaginu. Óhætt er að óska SI til hamingju með afar vel heppnað val á framkvæmdastjóra. Samtökin standa sterk eftir þessar breytingar og faglegt val á nýjum framkvæmdastjóra en um er að ræða mikla áhrifastöðu í atvinnulífinu.

Sigurður Hannesson er sjötti framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins frá stofnun þeirra fyrir 23 árum: Sveinn Hannesson frá 1994 til 2007, þá Jón Steindór Valdimarsson, nú þingmaður, frá 2007 til 2010, Orri Hauksson, nú forstjóri Símans,  tók þá við og gegndi starfinu til ársins 2013. Kristrún Heimisdóttir var framkvæmdastjóri SI í 9 mánuði þar til Almar Guðmundsson kom til starfa frá 2014 og þar til nú.

Öfgahægrimenn verða að sætta sig við þá staðreynd að eftirspurn eftir þeirra skjólstæðingum er afar dræm í atvinnulífinu.

rtá.