Dómsmálaráðherra sem brýtur lög hlýtur að víkja

Hæstiréttur dæmdi í dag íslenska ríkið til að greiða lögmönnunum Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni miskabætur vegna ólöglegrar málsmeðferðar við skipun 15 dómara við Landsrétt. Ástráður og Jóhannes Rúnar voru á meðal 15 hæfustu umsækjendanna en Sigríður Andersen dómsmálaráðherra kaus að skipa þá ekki sem dómara heldur breyta út að niðurstöðu faglegrar hæfisnefndar og skipa í þeirra stað aðra sem voru ekki metnir meðal 15 hæfustu umsækjendanna. Þeirra á meðal var eiginkona Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi og Sigríður.

Pólitískur óþefur hefur verið af þessu máli allan tímann og nú er komið á daginn að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra braut lög samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar. Þegar sú niðurstaða er fengin hlýtur ráðherrann að segja af sér. Geri hún það ekki af eigin frumkvæði, verður að ætlast til þess að formaður Sjálfstæðisflokksins víki henni og skipi annan dómsmálaráðherra.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki frumkvæði að því að láta Sigríði Andersen víkja, þá hlýtur forsætisráðherra að krefjast þess. Trúverðugleiki ráðherra sem brýtur lög getur ekki talist viðunandi. Trúverðugleiki dómsmálaráðherra sem brýtur lög er enginn. Hvernig eiga þeir sem heyra undir dómsmálaráðuneytið að taka slíkan dómsmálaráðherra alvarlega. Þá er átt við dómstóla landsins, lögregluna og ýmsar viðkvæmar stofnanir eins og t.d. þær sem fjalla um málefni innflytjenda og fanga.

Nú er það staðfest að Sigríður Andersen lét pólitískan geðþótta ráða vali á dómurum og vék faglegum vinnubrögðum til hliðar. Með því gerðist hún brotleg við lög. Strax var bent á augljós pólitísk fingraför á vinnubrögðum ráðherra þegar hún valdi að sniðganga Ástráð Haraldsson sem er þjóðþekktur vinstri maður, fyrrverandi eiginmaður Svandísar Svavarsdóttur ráðherra Vinstri grænna og þar með fyrrverandi tengdasonur Svavars Gestssonar mesta núlifandi leiðtoga sósíalista á Íslandi. Með því gaf Sigríður mikinn höggstað á sér sem nú kristallast í lögbroti sem staðfest er af Hæstarétti Íslands.

Forvitnilegt verður að sjá hvern Sjálfstæðisflokkurinn velur sem dómsmálaráðherra í stað Sigríðar Andersen. Í þingmannahópi flokksins eru lögfræðingar sem munu sækja það stíft að fá ráðherraembættið. Þar er um að ræða Birgi Ármannsson og Brynjar Níelsson. Eins kæmi til greina að sækja dómsmálaráðherra út fyrir núverandi þingflokk. Þannig væri hægt að kalla Unni Brá Konráðsdóttur til en hún féll út af þingi í kosningunum sl. haust. Þá er rétt að hafa í huga að ekki er nein skylda að dómsmálaráðherra sé löglærður. Mörg dæmi eru til um dómsmálaráðherra á Íslandi sem hafa ekki verið lögfræðingar.

Þessi heita kartafla er nú í höndum Bjarna Benediktssonar.

 

Rtá.