Dauði lýðræðis - er komið að byltingu?

 

Karl Marx er kenndur í félagsfræði um allan heim. Ekki vegna þess að nútíma fræðimenn trúi því að byltingar öreiganna muni að lokum leiða til útópíu eins og Marx hélt fram heldur vegna kenninga hans um sögulega efnishyggju. Sósíalismi er sem ídeal nokkuð girnileg stefna en í framkvæmd er saga stefnunnar blóði drifin.

En þegar völd fárra bitna á afkomu margra, þegar vinnuafl verður sífellt til færri skildinga metið í samanburði við arð þeirra sem eiga \"framleiðslutækin\" eins og Marx kallaði þau getur aðeins tvennt gerst. Annað hvort blása hinir snauðu til byltingar. Eða að óréttur þeirra verður meiri og meiri.  Það kallast kúgun.

Svipuð staða er nú komin upp á hinu fagra Íslandi og sums staðar utan landsteinanna. Hagsmunasamtryggingar auðugra einstaklinga eru á góðri leið með að kæfa lýðræðið og afskræma hagsmuni hins venjulega manns. Ef lýðræðið kafnar skapast mikil efnahagsleg vá fyrir almenning. Hættan getur með tíð og tíma snúið beint að lífi eða dauða borgaranna ef ekki verður gripið til athafna, velferðinni er ekki einni ógnað. Kröfur um sterka foringja sem lofa að \"taka til\", beita geðþóttavaldi jafnvel til að koma reiðu á samfélagið getur leitt til þess að stórhættulegir menn komast til valda. Slíkir menn eru jafnan hallir undir hervald. Heimurinn bjó öldum saman við þetta skipulag. Það kallaðist þá konungsveldi. Örlögum þegnanna var stjórnað með geðþótta og eina leiðin til að lifa af gat falist í skilyrðislausri undirgefni.

Við höfum séð vísbendingar um seigfljótandi dauða lýðræðis í Bandaríkjunum. Með tilhugsuninni um Donald Trump sem forseta og valdamesta mann veraldar yrðu sett ný viðmið hvað varðar ógnir alheimsins. Hinum megin á hnettinum sjáum við ógnarstjórn Pútíns. Asíubúum fjölgar sem aldrei fyrr á sama tíma og barneignir eru að leggjast af í gömlum Evrópuríkjum. Allt mun þetta leiða til einhvers, krafa um jafnari lífsgæði mun leiða til þess að vesturlandabúar neyðast til að afsala sér ýmsum forréttindum. Það er ókei vegna þess að nóg er til skiptanna fyrir okkur öll. En kannski þarf ekki að leita út fyrir landamæri Íslands til að sjá mestu hættuna. Auður einstaklinga er í sumum tilvikum orðinn meiri en auður ríkjanna. Það þýðir að ríkisvald hefur víða mátt lúta í gras fyrir ríkidæmi fárra en gríðaröflugra einstaklinga. Má ekki sjá sömu þróun hér á landi og víða annars staðar? Oddamenn ríkisstjórnar Íslands eru nú báðir í hópi ríkustu einstaklinga landsins. Báðir högnuðust að hluta beint eða óbeint á gróðabralli, tengslum, hagsmunavenslum, fákeppni, tengdaföður annars þeirra var stefnt af dóttur til að fá fyrirfram greiddan arð. Báðir hafa geymt fé á aflandssvæðum sem hefur valdið hneykslun - en hneykslunin má sín lítils gegn því ójafnvægi sem þegar er orðið vegna vaxandi ójafnaðar.

Peningar kaupa völd. Græðgin er óseðjandi púki. Ríkir einstaklingar hafa miklar bjargir til að spinna þræði og rugla almenning. Þá getur skapast kjörlendi fyrir ákallið um sterka leiðtogann. Hvað sem má um þá Sigmund Davíð og Bjarna Ben segja (að ekki sé minnst á hinn forríka innanríkisráðherra okkar) þá fylgir allnokkur fjöldi landsmanna stefnu ríku drengjanna okkar. Fjöldi óupplýstra kjósenda kýs að líta fram hjá persónvöldum pólitískra foringja sem samofin viðskiptalífi eru beintengd auði þeirra. Óupplýstir kjósendur vilja ekki endilega vita hvaða áhrif þessi persónuvöld hafa á stjórnun þjóðarbúsins og útdeilingu almannagæða. Þeim er betur skemmt þegar hinir sterku leiðtogar taka stórt upp í sig, mála fjandmann í flestu sem hrærist utan landsteinanna. Slík orðræða getur leitt til þess að margir kjósendur hugsi: Ég ætla að halla mér að þessum, hann er enginn veifiskati hann Sigmundur!

Sömu kjósendur veigra sér við að þaulskoða að hér á landi verða þeir ríkastir sem hafa greiðastan aðgang að almannaauðlindum. Menn tala ýmist um félagshyggju eða frjálslyndi en þegar allt kemur til alls er einn mikilvægasti liðurinn í því að verða ríkur á Íslandi að hafa aðgang að ríkisfé og eða annarri fyrirgreiðslu sem tengist ríkinu. Stundum kallað pilsfaldakapítalismi. Ógnin af stefnunni er þó meiri en orðið lýsir.

Það væri vissulega of langt gengið að líkja oddamönum ríkisstjórnarinnar við Donald Trump þegar kemur að orðræðugreiningu sumra höfðingja hér á landi. En líkindi má finna með orðræðu sumra íslensku leiðtoganna og því sem ógæfufólk vestan hafs hefur fallið fyrir í ræðu og riti Donalds Trump. Kaldhæðni örlaganna er að hinir ríku sem vanist hafa svo forréttindum sínum að þeir sjá þau ekki lengur, hinir sömu og kjósa tvöfalt hagkerfi, kjósa að ávaxta sitt pund með öðrum hætti en almenningur á kost á, kaldhæðni örlaganna felst í því að þessir sömu einstaklingar geta með því að geyma fé sitt utan landsteinanna valið um skatta og álögur sem aftur verður til þess að fé sem ætti að falla til almennings í gegnum sjóði velferðarkerfisins rennur ekki til fólksins í landinu heldur bætist það ofan á gullhrúgur auðmannanna. Þeir hinir sömu og skara eld að eigin köku og einkavina sinna, hafa nefnilega lag á að höfða til þeirra kjósenda sem minnstar bjargir hafa eða eru undirgefnastir. Þeir eru flinkir í að slá ryki í augu almennings, þeir fremja barbabrellur sem torvelda fólki að sjá hvað þjónar raunverulega hagsmunum almennings og hvað ekki.

Að auki vomir svo yfir sumum hinn blauti draumur öreiganna að fá með hlýðni og undigefni um síðir kannski einn þvældan aðgöngumiða að stóra partýinu, stóru tækifærunum til að auðgast og komast í hóp elítunnar. Gagnrýnendum verður seint boðið til þeirrar veislu. Við búum í heimi þar sem flestir vilja verða ríkir og helst með sem minnstri fyrirhöfn. En kannski felst vonin í því að enn fleiri vilji þó búa við samfélagskerfi þar sem ríkið hugar að sérhverjum einstaklingi, gætir veikbyggðra bræðra og systra frá morgni til kvölds. Samkenndin og samábyrgðin gerir okkur að manneskjum.

Í því felst nokkur ljóstýra. En baráttan við að vinda ofan af valdi spilltra auðmanna verður ekki átakalaus.

Að lokum er gott að minna á að til er hellingur af góðu og ríku fólki í heiminum sem lætur sitt rakna til bágstaddra, finnur vel til eigin samfélagsábyrgðar. Fæstir í þeim hópi eru þó nýríkir eins og háttar til um Íslendinga. Nýríkir vegna þess að þeir fengu vegna vensla og tengsla tækifæri til að sjúga almannaspena og nokkur hluti þess kom úr hafinu. Tilberarnir munu halda áfram uppteknum hætti, enda eiga þeir framleiðslutækin og hafa líf og limi hins almenna manns í höndum sér.

Eins lengi og þeim verður gert kleift að komast upp með það!

Björn Þorláksson