Dagur tilfinninganna er framundan

Vísbendingar eru að sögn aðstandenda mótmæla næsta mánudag um að fjölmennur hópur óánægðra borgara muni koma saman á Austurvelli þegar þing kemur aftur saman eftir páskaleyfi.

Stjórnarmeirihlutinn gerir lítið úr óánægju almennings og bendir Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á að framsókn hafi heldur bætt við sig fylgi undanfarið skv. þjóðarpúlsi Gallup. Fylgismælingin var þó gerð á löngum tíma. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir í færslu á facebook að hún búist við að könnun sem gerð yrði nú myndi sýna aðra niðurstöðu hvað varðar stuðning við stjórnarflokkanna.

Þingmenn bæði meiri- og minnihluta sem Hringbraut hefur rætt við telja að Tortólamál Sigmundar Davíðs sé langalvarlegast þeirra uppljóstrana sem komið hafi fram. Þá hefur Kastljós boðað að klukkan 18 á sunnudag verði sýndur sérstakur þáttur með nýjum uppljóstrunum og tengjast vinnu sem Jóhannes Kr. Kristjánsson hratt af stað ásamt teymi erlendra rannsóknarblaðamanna. Fyrirspurn frá Jóhannesi leiddi til þess að forsætisráðherrafrúin upplýsti á facebook um eignirnar á Tortóla. Degi síðar birtust fréttir um kröfur félags hennar í föllnu bankanna sem hafa vakið spurningar um hæfi forsætisráðherra. Síðar hefur Bjarni Benediktsson lent í miklum vanda við að útskýra sitt félag sem hann hafði áður sagt ósatt um í viðtali við Helga Seljan.

Fimm dögum eftir að undirskriftasöfnun var hrundið af stað á netinu  hafa tæplega 15.000 Íslendingar sagt Sigmundi Davíð upp störfum.

Stjórnarandstaðan hyggst leggja fram vantraust á forsætisráðherra eftir helgi. Hún bindur vonir við að umboðsmaður Alþingis hefji sjálfstæða rannsókn á hæfi Sigmundar Davíðs. Krafa um þingrof og kosningar er komin fram. Mikil reiði ríkir í samfélaginu. Margir upplifa sig sem afskipta frá yfirstétt stjórnmála og viðskiptalífs. Hinir sömu og hampað hafa krónunni og málað upp óvini utan landsteinanna nýta sér öll þau forréttindi sem fylgja aðgengi að erlendum gjalmiðlum - og það í skattaskjólum!

Stefnir í að mánudagurinn fjórði apríl næstkomandi verði í öllu falli dagur mikilla tilfinninga.

Björn Þorláksson