Brýnt að vera með hlutina á hreinu þegar kemur að því að taka fjár­hags­legar á­kvarðanir í fjöl­býlum

Sigurður H. Guð­jóns­son lög­maður og fram­kvæmda­stjóri Hús­eig­enda­fé­lagsins verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Fast­eignir og Heimili í kvöld:

Háanna­tími aðal­funda hús­fé­laga er genginn í garð og þá er að mörgu að huga og vert að vanda til verka. Sigurður H. Guð­jóns­son lög­fræðingur og fram­kvæmda­stjóri Hús­eig­anda­fé­lagsins þekkir vel til og hefur ára­tuga reynslu þegar kemur að því að halda aðal­fundi hús­fé­laga og hvað ber að hafa í huga.

En Hús­eig­anda­fé­lagið er fyrst og fremst al­menn hags­muna­sam­tök fast­eigna­eig­enda hér á landi og gegnir í því til­efni mjög mikil­vægu hlut­verki og hefur á 90 ára starfs­ferli haft veru­leg á­hrif þeim til fram­dráttar og staðið dyggan vörð um hags­muni þeirra. Sigurður verður gestur Sjafnar í kvöld og Sjöfn fær Sigurð meðal annars til þess að fara yfir hvaða at­riði geta skipt sköpum og hvernig hægt er að koma í veg fyrir að fundir sem þessir fari út um þúfur.

„Fjöl­eignar­húsa­lögin eru mikill bálkur og eru þau lög sem brenna oftast og heitast á venju­legu „upp og ofan fólki“ , svona „dagligdags“ og á degi sem nóttu. Mann­lífið er fjöl­breytt og sam­býlið og sam­skiptin línu­dans Þar sem vegast á til­lits­semi og um­burða­lyndi. Einn vill frið og annar fjör, einn er fram­kvæmda­samur en annar væru­kær og svo fram­vegis,“ segir Sigurður. Meira um þessi mál í þættinum í kvöld.

Þátturinn Fast­eignir & Heimili verður á dag­skrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjöl­breyttur og með per­sónu­legum blæ.