Brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu veldur þeim endalausri ógæfu

Boris Johnson svindlaði Bretum út úr Evrópusambandinu með blekkingum fyrir kosningar sem haldnar voru um hvort framtíð landsins lægi innan eða utan ESB. Löngu er orðið ljóst að honum gekk ekkert annað til en að koma sjálfum sér til valda í landinu. Það tókst. Sigurgleðin varð hins vegar skammvinn. Rúinn trausti hrökklaðist hann frá völdum.

Breska þjóðin líður fyrir þá heimskulega ákvörðun að draga Bretland út úr ESB. Landsmenn eru í vandræðum með aðdrátt matvæla og eldsneytis og staðan á vinnumarkaði hefur versnað til mikilla muna. Gengi gjaldmiðils þeirra hefur fallið, hagvöxtur er á niðurleið og mikilvæg fyrirtæki hafa flúið úr landi og komið sér fyrir á meginlandi Evrópu.

Íhaldsflokkurinn fékk skammvinnan byr út á innistæðulaus loforð um gull og græna skóga utan ESB en svo sló í bakseglin. Boris Johnson komst í stól forsætisráðherra en var hent öfugum út. Farið var út með hann eins og hvert annað rusl. Margir töldu að þá væri vandinn leystur.

Þá tók ekki betra við. Flokkurinn valdi nýjan leiðtoga og Liz Truss tók við sem forsætisráðherra. Á sex vikum hefur henni tekist að klúðra öllu sem unnt er að klúðra og Boris Johnson var ekki þegar búinn að klúðra. Nú er staða hennar þannig að hún situr enn á valdastóli en er algerlega valdalaus og rúin trausti. Helsta afrek hennar er að við liggur að Bretar séu farnir að sakna trúðsins Boris Johnson.

Hvað gerist næst? Ekki geta Bretar snúið aftur til Evrópusambandsins. Evrópa vill Breta alls ekki til baka. Íhaldsflokkurinn situr uppi með Liz Truss sem gagnslausan forsætisráðherra en á ekki gott með að losa sig við hana. Flokkurinn gæti þurft að bíða enn um sinn til að skipta henni út og á meðan hrynur fylgið og stefnir í afhroð í næstu kosningum, hvort sem þær verða eftir tvo mánuði eða tvö ár.

Bretland hefur aldrei lent í viðlíka stöðu. Heimatilbúin krísa sem byrjaði með vanhugsaðri úrsögn úr Evrópusambandinu. BREXIT er dýrasta klúður allra tíma.

- Ólafur Arnarson.