Börn úr Eyjum lýsa sárri reynslu: „Drullaðu þér bara heim! Þið fáið allt frítt, hel­vítin ykkar!“

Börn sem bjuggu í Vestmannaeyjum þegar eldgosið braust út árið 1973 upplifðu mörg hver sársauka, barsmíðar, einelti og neikvætt viðhorf af hálfu fólks uppi á landi.

Fréttablaðið fjallar ítarlega um þetta í dag og greinir frá því að mikill fjöldi fólks hafi að undanförnu opnað sig um sára lífsreynslu á barnsaldri þegar þúsundir Eyjamanna þurftu að yfirgefa heimili sín í kjölfar eldgossins. Bent er á það að Gísli Ingi Gunnarsson hafi hafið umræðu á Facebook og miðað við viðbrögðin sé ljóst að fjöldi Eyjabarna eigi skelfingar minningar frá þessum tíma.

„Ég bjó í Hvera­gerði og gat ekki leikið við önnur börn vegna þess að ég var við­laga­sjóð­s­pakk og var bara laminn,“ hefur Fréttablaðið eftir Gísla. Hann dregur þó ekki önnur börn til á­byrgðar heldur segir hann að nei­kvæð við­horf til Eyja­barna hafi orðið til við eld­hús­borð hinna full­orðnu í landi.

Fleiri lýsa svipaðri reynslu og segir Sif Gylfadóttir að hún hafi verið „viðlagasjóðspakk og Vestmannaeyingur og átti enga vini.“ Þá lýsir önnur kona því að hún hafi verið kýld og grjóti kastað í hana og önnur lýsir káfi og kynferðislegri áreitni.

Sig­ríður Sigurðar­dóttir segist hafa setið undir eftir­farandi: „Drullaðu þér bara heim! Þið fáið allt frítt, hel­vítin ykkar! And­skotans þurfa­lingar!“

Fréttablaðið ræðir við Ragnar Óskarsson, 75 ára sögukennara í Eyjum, sem segist þekkja umræðuna vel. Hann telur þó að mjög margt hafi verið til fyrirmyndar.

„Ég bjó í Reykja­vík á þessum tíma og heyrði oft nei­kvætt tal um Vestmannaeyinga, að þeir væru komnir á spenann og væru á fram­færi fólks sem hefði varla efni á að fram­fleyta sjálfu sér,“ segir Ragnar og bætir við að viðhorf þessa tíma hafi verið þau að venjulegir Íslendingar þyrftu að hafa mikið fyrir því að koma upp þaki yfir höfuðið. Mörgum hafi blöskrað meintur for­gangur Eyja­fólks í hús­næðis­málum.

Ítarlega umfjöllun um þetta má nálgast á vef Fréttablaðsins og í Fréttablaðinu í dag.