Bieber og skilaboðin til barnanna

Justin Bieber ku dvelja hér á landi þessa dagana. Einn fjölmiðill umfram aðra hefur gert ferðum hans ítarleg skil en vitaskuld er ferð hans fréttnæm og fylgjast fleiri með. Bieber er kornungur tónlistarmaður og nýtur mikilla vinsælda meðal margra barna og ungmenna. 67 milljónir fylgja honum á Twitter. Það er einn mælikvarði á velgengni drengsins.

Það kemur fyrir að ég spyrji yngstu börnin mín hvað þau hyggist fást við í framtíðinni. Oftar en ekki fela svör þeirra í sér einhvers konar Bieber-draum um frægð og frama, auð eða völd – helst án mikillar fyrirhafnar! Frægustu fótboltakappar heims eru nefndir sem og tónlistar- eða leikstjörnur.

Súperstjörnur hafa alltaf heillað ungviðið sem er eðlilegt. Streð og störf sem höfða ekki til barnssálarinnar eru ekki ofarlega á óskaborði þeirra sem njóta frelsis og forréttinda. Hver tími hefur líka sitt andrúm og viðhorf til vinnu. Mig grunar að uppeldi hafi í æ ríkari mæli þróast í þá átt að börn séu í bómull sem lengst. Á móti kemur að hugtök eins og ábyrgð, vinnusemi og sjálfstæði geta farið halloka í uppeldinu. Sem og hreinlega jarðbinding barnanna.

Saga Biebers er heppnissaga, ein á móti tíu milljónum. Fyrir hverjar 10 milljónir barna sem lifa drauminn um auð, einkaþotur, vinsældir, frægð og frama – fyrir vinnu sem vel má hugsa sér að geti verið skemmtilegasta vinna í heimi – nær eitt árangri. 9.999 milljónir barna munu því kynnast einhvers konar vonbrigðum ef ætlunin er að einblína á Bieber-drauminn.

Heppni eða óheppni kann tímabundið að ráða örlögum okkar en að jafnaði byggir gott líf hvorki á heppni né óheppni heldur vinnu. Á köflum er lífið líka hreinlega blóð sviti og tár, missir, vonbrigði og annað sem gerir okkur þó kleift að læra af liðnum skrefum. Slíkur lærdómur kann að vera forsenda nýrra sigra. Sá sem eltir þann draum að lífið skuli ávallt án sársauka eða fyrirhafnar og gerir kröfu til þess draums er ekki eins líklegur til að öðlast djúpstæða hamingju eða farnast vel og þeim sem fær bitastæðari gildi í uppeldinu. Vellíðanin sem fylgir árangri verður oftast þegar við höfum lagt mikið og markvisst á okkur til að ná settu marki. Þannig finnst mér það a.m.k. vera.

Það er gaman þegar fólki gengur vel en saga Biebers er frávik í raunveruleikanum. Að einblína á Bieber sem upphafið viðmið virðist nokkuð hæpið. Í þessum efnum hafa fjölmiðlar allnokkra ábyrgð – með þeim skilaboðum sem þeir senda börnunum okkar.

Mest er þó ábyrgð okkar foreldra og forráðamanna sjálfra.