Bankasýslan er heil stofnun utan um fjögur hlutabréf

Eitt dæmið um endemis rugl í opinberum rekstri er Bankasýsla ríkisins. Verkefni hennar er að halda á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ríkið á nú hluti í fjórum fjármálafyrirtækjum og rekur heila stofnun til að líta eftir þessum bréfum.

Samkvæmt heimasíðu Bankasýslunnar starfa að minnsta kosti þrír menn við að líta eftir þessum fjórum hlutabréfum. Forstjórinn, Jón Gunnar Jónsson, var með í skattskyldar tekjur á síðasta ári kr. 4.517.771 á mánuði samkvæmt tekjublaði DV. Það gera 54 milljónir króna í árslaun.

Á heimasíðunni er einnig getið um Karl Finnbogason sem fer fyrir “eignastýringu”. Hann fæst samkvæmt því við að stýra þessu fjögurra hlutabréfa eignasafni! Auk hans er nefndur Þórólfur Heiðar Þorsteinsson lögfræðingur. Þannig að ekki færri en þrír menn eru  við störf hjá Bankasýslu ríkisins við að líta eftir fjórum hlutabréfum. Um er að ræða eignarhluti í Landsbanka, Íslandsbanka, 13% hlut í Arion og svo hlut í Sparisjóði Austurlands.

Yfir allri þessari starfsemi er svo þriggja manna stjórn: Lárus Blöndal er formaður en hann er náinn vinur Bjarna Benediktssonar. Auk hans eiga sæti í stjórn þau Hulda Dóra Styrmisdóttir (Gunnarssonar fyrrum ritstjóra) og Sigurjón Örn Þórsson.

Þessu öllu til viðbótar er svokölluð “valnefnd” starfandi innan Bankasýslu ríkisins undir formennsku fyrrum ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar. Hún hefur það hlutverk að velja í stjórnir þessara fjögurra fjármálafyrirtækja sem stofnunin fylgist með.

Rekstur Bankasýslu ríkisins kostar skattgreiðendur á annað hundrað milljónir króna á ári. Það má ekki minna vera þegar ekki er hægt að sinna þessu verkefni nema með forstjóra sem þyggur 54 milljónir á ári í laun.

Bankasýslan var sett á fót tímabundið og átti að ljúka hlutverki sínu fyrir nokkrum árum. En fyrri ríkisstjórn framlengdi líf hennar. Til hvers, má spyrja?

Það er hneyksli að ríkisfjármunum sé sóað með þessum hætti þegar vantar fjármuni til margra brýnna verka í ríkisrekstri.

Þingmönnum meirihlutans virðist þykja þetta í lagi. Hvar eru þeir núna sem sífellt gagnrýna ríkisrekstur, þingmenn eins og Óli Björn Kárason, Sigríður Andersen og Guðlaugur Þór Þórðarson?

En hvað segir stjórnarandstaðan? Er hún steinsofandi og streindauð gagnvart sóun af þessu tagi?

Og hvað segja sjálfskipaðir handhafar samvisku þjóðarinnar, þeir Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson?

 rtá.