Átökin í framsókn eru rétt að byrja

Þeir sem halda að valdabaráttunni í Framsókn hafi lokið með úrslitum formannskjörsins á dögunum hafa rangt fyrir sér.

Liðsmenn Sigurðar Inga, formanns Framsóknar, hafa gælt við að Sigmundur Davíð muni fljótlega játa sig sigraðan, segja af sér þingmennsku og jafnvel flytja úr landi. (Gárungar nefna að hann gæti flutt til Tortóla!).

Dagfari telur að þessar hugrenningar þeirra séu byggðar á misskilningi eða öllu heldur óskhyggju.

Talið er að Sigmundur Davíð ætli sér að vinna til baka völdin í Framsóknarflokknum. Ekkert verður til sparað, hvorki orka né fjármunir.

Dagfari hefur heyrt að þegar hafi verið sett upp hernaðaráætlun sem tekur yfir talsvert langan tíma.

Hann gerir sér ljóst að núverandi formaður leggur allt kapp á að halda Sigmundi utan þeirrar ríkisstjórnar sem búið er að plotta á bak við tjöldin allt frá því að úrslit kosninganna lágu fyrir. Um er að ræða stjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar sem tekur við völdum föstudaginn 9. desember nk.

Ef Framsókn fengi þrjá ráðherra í þeirri ríkisstjórn, þá væri varla unnt að ganga fram hjá Sigmundi sem leiðir lista flokksins í höfuðvígi Framsóknar, NA-kjördæmi. Því hefur Sigurður Ingi einungis óskað eftir tveimur ráðherrastólum fyrir sig og Lilju varaformann.

Þegar þetta verður ljóst við myndun þessarar þriggja framsóknarflokka stjórnar, mun Sigmundur Davíð enn herða róðurinn gegn flokksforystunni. Dagfari telur sig hafa traustar heimildir fyrir þessu og veit hvernig hann ætlar að bregðast við.

Vigdís Hauksdóttir stendur með Sigmundi og ætlar að fella Sigurð Inga í kjördæmi hans á Suðurlandi. Vigdís hefur miklu meira persónufylgi en menn gera sér ljóst.

Sigmundur Davíð er talinn eiga vísan stuðning Morgunblaðsins, ÍNN, Bændablaðsins og Útvarps Sögu í þeim grimmu átökum sem framundan eru í Framsóknarflokknum.

Fljótlega mun koma á daginn hvort Sigmundur nær völdum að nýju eða ekki.

Þá þarf ekki að bíða lengi eftir því hvort Framsókn réttir úr  kútnum eða fer sömu leið og Samfylkingin sem hefur étið sig að innan með hatrömmum valdaátökum.

Draumurinn um Framsóknarlaust Ísland lifir enn góðu lífi.