Átök stundum óumflýjanleg

„Hið illa nær yfirhöndinni þegar gott fólk hefst ekki að.“

Þessi orð Edmund Burke eiga sannarlega vel við þessa dagana – eins og svo oft.

Á vefsíðu sem kennir sig við kristni hér á landi er því hampað að flóttamenn frá Sýrlandi séu dularfullir og varasamir, að athygli veki hve margir þeirra séu fullorðnir karlar. Ráðherra í erlendu ríki hélt fram að 2% flóttamanna kynnu að vera ISIS-hryðjuverkamenn. Kastljós hefur hrakið þá umræðu og birt frétt um myndafalsanir af flóttamönnum, gagngert í þeim tilgangi að ala á tortryggni og sundrungu. Hér á landi rantar þingmaður í fjölmiðlum um að eldri borgarar séu hræddir við að fá hingað sýrlenska flóttamenn og að við verðum að hlusta á eigin ótta og forgangsraða í takt við hann.

Tilgangurinn með umræðunni er augljós, að sá tortryggni og ótta í hjörtu Íslendinga gagnvart útlendum hópum,  jafnvel þeim sem síst skyldi. Hræðsluáróður er þekkt viðbragð þegar kemur að því að fólk gangist ekki við samfélagslegri ábyrgð sinni. Skítt með neyðina, morðin, kúgunina, eyðilegginguna! Þeir sem kjósa að líta framhjá þessu öllu, m.a.s. drápum á börnum, vilja halda áfram að fleyta rjómann, lifa í einangrun, sitja einir að forréttindum og án alþjóðlegra skuldbindinga.  Bara þegar það hentar mér, eins og Stuðmenn sungu! Þessi hópur virðist allt vilja þiggja en lítið leggja undir. Hópurinn flaggar gjarnan kristnum gildum  – en gleymir því sem haft er eftir meistaranum að sælla sé að gefa en þiggja.

Illska er oft ekkert annað en afurð fáfræði, einangrunar og fordóma. Og hið illa nær yfirhöndinni þegar gott fólk hefst ekki að.  Ummæli Edmund Burke gætu útskýrt hitann á samfélagsmiðlunum þessa dagana. Þar hafa tveir hópar Íslendinga lent í hörðum átökum, annar vill loka landinu fyrir flóttafólki, hinn horfir til mannúðar og tækifæra Íslands að losna frá eigin einsleitni.

Átök þessara hópa eru hvimleið og slítandi, þau sundra jafnvel vinahópum og fjölskyldum. Ef horft er til langs tíma og til baráttu fyrir mannréttindum í víðustu mynd, án allra landamæra, gætu átökin þó verið bestu fréttir sem komið hafa upp í lúxusvandamálalandinu okkar langalengi.

Án viðnámsins væru meiri líkur en ella á að hið illa næði yfirhöndinni. Í skjóli fáfræði, fordóma og ofstækis.