Ástríða athafnahjóna blómstrar í matargerð og list úti á Granda

Hjónin Íris Ann Sigurðardóttir og Lucas Keller létu drauma sína rætast fyrir liðlega sjö árum þegar þau ákváðu að opna veitinga- og sælkerastaðinn The Coocoo´s Nest út á Granda. Eftir frábærar viðtökur opnuðu þau einnig spennandi og frumlegan bar, Luna Flórens í næsta bili í gömlu verbúðunum.

Hjónin kynntust á Ítalíu á sínum tíma. Lucas er frá Kaliforníu og var að læra matreiðslu og Íris Ann var að læra ljósmyndun og sjónlist. Saman eiga þau tvo dásamlega stráka, Indigo, fimm ára og Sky, sjö ára. Sjöfn heimsækir Írisi Ann og Lucas á fjölskyldustaðina þeirra og fær innsýn í tilurð og sérstöðu staðana.

„Það skiptir okkur miklu máli að vera samkvæm sjálfum okkur og svo erum við mjög meðvituð um að vera eins vistvæn og hægt er. Lucas er mjög ástríðufullur kokkur og sleppur engum skrefum í sinni framleiðslu. Einungis gæðahráefni er notað og að vinna hráefnin frá grunni er okkar sérstaða á The Coocoo’s Nest,“ segir Íris Ann. Indigo er með foreldrum sínum í vinnunni og unir hag sínum vel og fær að taka þátt.

„Við erum öll fjölskyldan saman í þessu,“ segir Íris Ann og nýtur þess að geta haft strákana með í vinnuna. Einnig fær Sjöfn að líta inn í eldhúsið til Lucasar þar sem hann töfrar fram tvo rétti, á listrænan og skapandi hátt af hádegisverðarseðli staðarins. Missið ekki af áhugaverðu innliti þar sem hjón hafa látið drauma sína rætast með dásamlegri útkomu.

Þátturinn Fasteignir & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.