Ásmundur veldur uppnámi í suðurkjördæmi

Blaðagrein Ásmundar Friðrikssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hefur valdið miklu uppnámi í flokknum. Í greininni fjallar hann um kostnaðinn við hælisleitendur og varar við djörfum og lítt útfærðum loforðum til hælisleitenda í aðdraganda kosninga.
 
Sjálfstæðismenn hafa margir misst sig í skrifum út af þessu um helgina. Einkum konur sem vara við skoðunum Ásmundar. Þannig hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir farið mikinn, einnig Ragnheiður Ríkharðsdóttir og loks Unnur Brá Konráðsdóttir þingforseti.
 
Eftir að fólk tók að hvetja til þess að strika yfir Ásmund, lét Unnur Brá einmitt heyra í sér í fjölmiðlum.
 
Bíðum nú aðeins við. Ásmundur er í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi en Unnur Brá skipar fjórða sætið. Flokkurinn á nú fjóra þingmenn í kjördæminu en fengi einungis þrjá samkvæmt öllum skoðanakönnunum sem hafa verið birtar. 
 
Konur í flokknum eru miður sín yfir því að forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir, sé væntanlega að falla út af þingi. Enn mun þá veikjast staða kvenna innan flokksins við það. Og er þó dapurleg fyrir.
 
Eina leiðin til að halda Unni inni á þingi er að Ásmundur verði strikaður út í komandi  kosningum af þúsundum kjósenda flokksins.
 
Svo heyrast einnig þær raddir að Ási hafi sýnt pólitísk klókindi með því að taka forystu í umræðunni gegn taumlausum innflutningi hælisleitenda og stolið þar með senunni af öfgaflokkunum Flokki fólksins og Miðflokknum.
 
Andóf gegn hælisleitendum gæti orðið Sjálfstæðisflokknum til hjálpar í komandi kosningum.
 
Ásmundur Friðriksson ætti að vera dómsmálaráðherraefni Sjálfstæðisflokksins.
 
Rtá.