Ásgeir verður að fara

Seðlabankastjórinn Ásgeir Jónsson er einn umdeildasti ráðamaður þjóðarinnar. Það er skiljanlegt vegna þess að seðlabankastjóri verður að taka umdeildar ákvarðanir í starfi sínu. En hann verður einnig að temja sér viðeigandi framkomu og má ekki sýna fólki vanvirðingu eða hroka. Gerðar eru miklar kröfur til fólks í svo háum embættum varðandi framkomu og framgöngu. Ekki dugar að vera best klæddi maðurinn í húsinu þótt það sé vitanlega gott út af fyrir sig.

Nýlega varð Ásgeir Jónsson uppvís að því að vitna í trúnaðarsamtal við annan hátt settan embættismann ríkisins, sjálfan sáttasemjarann, sem einnig þarf á trausti þjóðarinnar að halda til að geta náð árangri í störfum sínum. Ásgeir rakti samtöl við hann sem gengu meðal annars út á að gera lítið úr fólki sem er meðal helstu leiðtoga launþegasamtakanna í landinu. Þessar upplýsingar hafa hleypt illu blóði í fólk, ekki bara þá sem var gert lítið úr, heldur einnig fjölda annarra

Viðbrögð við þessum trúnaðarbresti seðlabankastjórans eru meðal annar þau að þess hefur verið krafist að hann verði beinlínis „borinn út úr Seðlabankanum með svipuðum hætti og vinstri stjórn Jóhönnu gerði við Davíð Oddsson vorið 2009.“

Miklar breytingar hafa verið gerðar á lögum um Seðlabanka Íslands til að tryggja að til starfa seðlabankastjóra verði einungis skipað fólk með menntun og starfsreynslu við hæfi. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að bankinn verði notaður eins og áður tíðkaðist til að koma þar fyrir uppgjafa stjórnmálamönnum við hlið fagmanna til að bæta eftirlaun þeirra. Ásgeir uppfyllir nýjar kröfur um menntun enda er hann með doktorsgráðu í hagfræði. En einnig þarf að gera þær kröfur að maður í slíkri valdastöðu þekki sín mörk og ráði við sig varðandi alla framkomu í ræðu og riti.

Þá verður seðlabankastjóri að njóta trausts og trúnaðar ýmissa aðila úti í bæ, þar með talið úr hópi ráðamanna og fyrirsvarsfólks í atvinnulífi og verkalýðshreyfingu. Ásgeir hefur fyrirgert slíku trausti.

Forverar Ásgeirs sem alvöruseðlabankastjórar, þeir Jóhannes Nordal og Már Guðmundsson, hefðu aldrei leyft sér að vitna í tveggja manna trúnaðarsamtal og slúðrað opinberlega um nafngreint fólk eins og Ásgeir leyfði sér að gera.

Kraftar Ásgeirs Jónssonar hljóta að nýtast betur á öðrum vettvangi. Hann verður að hverfa af vettvangi Seðlabanka Íslands.

- Ólafur Arnarson