Andverðleikasamfélagið ísland

Ég verð að spyrja:

Hvað finnst okkur um að blásnauð móðir sem hnuplar rúgbrauðshleif í búð handa börnunum sínum lendi á sakaskrá?

En sumir þeirra sem nefndir voru í Kastljósi gærkvöldsins hafi enn sloppið við dóm þrátt fyrir að hafa margoft gengið út fyrir brúnir lagaramma og siðleysis.

Samkvæmt þeim reglum og samkvæmt þeirri hugmyndafræði, inngróinni blessun almennings gagnvart gerspilltri tengslahyggju þessa lands, höfum við búið svo um hnútana að mestu ógnir okkar eigin velferðarkerfis sleppa við refsingu vegna þess m.a. að hinar sömu tvígættu ógnir hafa komið sér upp svo miklum auði að dugar vel til varna. Þeir örfáu hvítflibbar sem þó hafa fengið dóm vegna stórglæpa sinna öskra á Mannréttindómstól og fá viðhafnarviðtöl í fjölmiðlum á afplánunartíma þar sem þeir lýsa óréttinum og algjörum blygðunarskorti. Sitja inni í nokkra daga, fá svo inni á Vernd og halda áfram að stýra veldinu sínu, þökk löggjafanum á Alþingi.

Við grýtum móðurina með rúgbrauðshleifinn - fyrir það eitt að vilja seðja svanga maga barna sinna.

En við horfðum á Finn Ingólfsson sinna eigin hagsmunum og gróðahyggju, sem ráðherra, sem seðlabankastjóra, sem innmúraðan klíkubróður sem þurfti ekki annað en að styðja á takka á baki félaga sinna til að gullið helltist yfir hann.

Á sama tíma bendir margt til að sjóðir þeir sem nýtast eiga fátækum hafi  rýrnað vegna sömu umsvifa sama Finns Ingólfssonar og félaga.

Við höfum hampað andverðleikunum, svo sem græðgi, hroka og ágirnd. En jaðarsett verðleika sem byggja á hugmyndum um samjöfnuð, réttlæti og þjóðarsamvisku.

Mál er að linni.

Björn Þorláksson