Allir stjórar hringbrautar reknir!

Yfirstjórn Hringbrautar tengist hneykslismáli. Forstjórinn segir af sér og aðrir yfirmenn eiga vegna sögu sinnar og tengsla allt undir trausti hluthafa og starfsmanna. Haldinn er neyðarfundur og niðurstaðan er að enginn stjóranna njóti trausts. Þá hætta þeir og nýr yfirmannafloti er skipaður. Þar kæmi ekki til greina að harðasti stuðningsmaður forstjórans fyrir hneykslið og líka eftir að það kom upp yrði ráðinn forstjóri í hans stað! Aðeins með nýju trausti, nýjum trúnaði gæti fyrirtækið starfað áfram. Hér erum við þó bara að tala um einkageirann á Íslandi en ekki opinbera stjórnun þar sem traust frá almenningi ræður öllu hvort vel er stjórnað eða illa. Hvort fyrirtækið, sem í tilviki ríkisstjórnarinnar er fyrirtækið Ísland, á sér viðreisnar von eða ekki.

Vitaskuld er dæmið að ofan tilbúningur, afsakið fyrirsögnina, afsakið dæmisöguna. Það er allt í góðu lagi hjá Hringbraut, engin hneyksli, það er sama staða hjá Hringbraut eins og langflestum einkafyrirtækjum á markaði, þar á bæ vita menn að fyrirtæki njóta ekki trausts nema fólkið sem starfar hjá því njóti trausts og bera þar yfirmenn mesta ábyrgð.

Því hljómar það eins og súrrealískur frasi að heyra menn ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar tönnlast á því að engir aðrir en skúrkarnir sjálfir, sem misst hafa tiltrú almennings, séu þess verðir að klára málin í stjórninni. Þótt rannsóknir og mælingar m.a. frá Gallup sýni og sanni að þjóðinni, undirmönnum Bjarna Ben í fyrirtækinu Íslandi, finnist af og frá að hann leiði brothættu vinnu sem varðar efnahagsmál fyrir hönd almennra starfsmanna í fyrirtækinu Íslandi. Allra síst eftir þann trúnaðarbrest sem skapast hefur milli Bjarna og borgara vegna aflandsmála, ósanninda og hæpinna viðskiptatengsla.

Og 5% þjóðarinnar vilja sjá Sigurð Inga sem forsætisráðherra. Fimm prósent. 95% vilja það ekki en samt er Sigurður Ingi forsætisráðherra.

Kannski var það einu sinni svo að ríkisbubbar höfðu áheyrendur þegar þeir héldu fram að Ísland væri svo fámennt að ekki væri hægt að skipta út toppum. Þrátt fyrir klúður væru þessir ríkisbubbar svo verðmætir og dýrmætir að gildi þeirra sem gullkálfa yfirskyggði kröfu um traust og trúnað!

Sá tími er löngu liðinn.

Í heilbrigðu samfélagi ættu borgarar að geta gert meiri og betri siðferðiskröfur til þeirra sem fara með umboð almennings en á einkamarkaði fyrirtækja.

Það er verkefni dagsins. Að breyta stjórnsýslukerfinu. Hluthöfum, starfsmönnum Íslands í hag. Hinum óbreyttu borgurum.

Björn Þorláksson