\"áhrifakonum\" er enginn greiði gerður

Einhver hallærislegasta umfjöllun sem fjölmiðlar bjóða upp á eru samantektir á borð við best klædda kona eða best klæddi maður landsins, kynþokkafyllsta kona eða karl landsins og svo val þeirra á valdamesta fólkinu.

 
Í hvert sinn sem svona lagað birtist hríslast alltaf ískaldur aulahrollur niður bakið á mér.
 
Viðskiptablaðið birti í liðinni viku svona samantekt sem blaðið kallar \"Áhrifakonur\" þar sem nefndar eru fjölmargar konur í áhrifastöðum á Íslandi. Þeim konum sem koma þarna við sögu er ekki gerður neinn greiði með því að vera dregnar inn í þessa vandræðalegu umfjöllun.
 
Frjáls verslun hefur gert þetta lengi og nú apar Viðskiptablaðið þetta eftir þeim. Bæði blöðin auðvitað að reyna að selja auglýsingar út á þetta.
 
Þegar jafnrétti kynjanna er forgangsmál eins og á Íslandi, er svona kynjaskipt umfjöllun alger tímaskekkja. Þetta er lítilsvirðing við konur. Þær konur sem mikið kveður að þurfa ekki ölmusu af þessu tagi.
Ekki eru birtar svona umfjallanir um áhrifamestu karlmenn þjóðarinnar og ekki hafa þeir stofnað Félag karla í atvinnurekstri eins og konur hafa gert, FKA, Félag kvenna í atvinnulífinu, sem gerir ekki mikið en er í besta lagi bara krúttlegt.
 
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Út á þau lög eiga ýmsar konur sæti í stjórnum einungis vegna þess að það vantaði konur til að fylla upp í kvóta.
 
Þær verða engar \"áhrifakonur\" út á það.
 
Hins vegar eru margar konur nefndar í Viðskiptablaðinu sem hafa náð á toppinn út á eigin verðleika og ekkert annað. Þá er ég að tala um konur sem standast hvaða karlmanni snúning í samanburði hvað varðar forystu-og stjórnunarhæfileika.
 
Ég hef allt annað og meira álit á þeim en hinum sem komast áfram út á kynjakvóta.
Þær vega ekki þungt.
 
Dæmi um konur sem Viðskiptablaðið nefnir og hafa komist áfram á eigin verðleikum, óháð kyni, og standast körlunum fyllilega snúning:
 
Erna Gísladóttir, forstjóri B&L og formaður í Sjóvá; Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans; Katrín Jakobsdóttir, þingmaður og formaður VG; Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka; Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI og formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna; Lív Bergþórsdóttir, forstjóri Nova og formaður WOW;  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra; Margrét Guðmundsdóttir, formaður N-1 og stjórnarmaður í Heklu og Ísavía; Björt Ólafsdóttir, ráðherra; Ingibjörg Pálmadóttir, eigandi 365 miðla og 101 hótels; Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME - og síðast en ekki síst Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
 
Allar þessar konur hafa komist til mikilla áhrifa án kynjakvóta og einungis út á eigin verðleika.
 

rtá