Afsögn vilhjálms vísar veginn

\"Augljóst má vera að svona flókið eignarhalds- og fjárfestingadæmi hjá gjaldkera Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands er lítt til þess fallið að fókusera umræðuna sem nú stendur yfir um aflandsfélög og skattaskjól á það sem máli skiptir: ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann í landinu. Ég hef því ákveðið að segja af mér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar, og styð stjórnarandstöðuna eindregið í því að kalla fram ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna á sínu fólki.\"

Svo kann að fara að ofangreind yfirlýsing Vilhjálms Þorsteinssonar, gjaldkera Samfylkingarinnar, sem sagði af sér trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna seint í gærkvöld vegna frétta, umræðu og torrtryggni um störf hans vegna félags sem er í hans eigu utan landsteinanna, kunni að hafa meiri áhrif í stjórnmálasögunni en margar grunar.

Ástæðan er einföld: Við erum sem þjóð óvön því að maður sem gegni trúnaðarembætti fyrir stjórnmálasamtök axli ábyrgð með eigin afsögn til að skapa sátt, auka trúverðugleika og liðka til fyrir því að skerpa landsmanna haldist óbrengluð á mun aðalatriða og aukaatriða í miklu stærra hneykslismáli. Forsætisráðherra er vegna eignar Tortóla-hjónanna ber að hagsmunaárekstri, sitjandi beggja megin borðsins vegna föllnu bankanna, bæði sem eiginmaður kröfuhafa og æðsti stjórmálamaður landsins. Að ekki sé talað um siðrofið, gatið sem opnast hefur milli hans og þjóðarinnar. Á grundvelli rannsóknar blaðamanna hafa komið fram upplýsingar sem leitt hafa til þess að krafist er þingrofs og kosninga. Mótmæli hafa verið boðuð á Austurvelli næsta mánudag þegar Alþingi kemur saman eftir páskaleyfi. Samt ber Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sér á brjóst í Mogganum í dag: \"Ég var farinn að óttast að það yrði ekkert úr þessu hjá þeim,\" segir hann um vantraust og þingrofstillögu minnihlutans. Hann segir einnig: \"Mér líst mjög vel á það ef það stefnir í að þau ætli að manna sig upp í að að leggja fram vantraust þótt þau kalli það öðru nafni.\"

Með þessum hroka gleymir Sigmundur Davíð því enn eina ferðina að umboð sitt til starfa sækir hann til þjóðarinnar en ekki til minnihlutans á Alþingi. Hann er háðum öllum almenningi, hann á ekki bara að vera forsætisráðherra þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn eða stjórnina, góður forsætisráðherra er leiðtogi allrar þjóðarinnar, góður leiðtogi hefur vit á að stíga til hliðar ef meirihluti landsmanna treystir ekki leiðtoganum.

Íslenskur almenningur fékk skilaboð um rétt og rangt með yfirlýsingu Vilhjáms Þorsteinssonar í gærkvöld. Íslenskur almenningur fékk kærkomið fordæmi, nýja von um betra samband við framtíðarleiðtoga sína. Almenningur veit að nóg er að vafi skapist um heilindi, traust og trúnað þegar illa þokkuð skattaskjól sem ógna velferðarkerfum, ósannindi, gleymska, undansláttur og fleira kemur saman auk hagsmunaárekstrar. En Sigmundur Davíð lætur  á sama tíma eins og hann sé konungborinn og hafi erft embætti sitt. Hann telur sig ekki þurfa að óttast álit íslensks almennings þar sem hluti landsmanna vill þó þingrof og kosningar, afsögn forsætisráðherra. Forsætisráðherra belgir sig bara og gerir grín að minnihlutanum á forsíðu Morgunblaðsins. Hinum sama minnihluta og nú á fulltrúa sem hefur stigið til hliðar og hefur axlað ábyrgð vegna máls sem er 100 sinnum minna í sniðum  en skandall forsætisráðherra.

Og enn á Sigmundur Davíð eftir að svara spurningum fréttamanna Rúv. Það eitt að forsætisráðherra þjóðar neiti að ræða við fulltrúa almannaútvarpsins eftir að upp kemur skandall af slíkri stærðargráðu og varðar hann sjálfan er vitaskuld frágangssök. Ofan á annað...

Björn Þorláksson