Áfall fyrir Guðmund Felix: Líkaminn byrjaður að hafna handleggjunum

Guðmundur Felix Grétarsson, handhafi, hefur fengið bakslag eftir handa-ígræðsluna sem hann gekkst undir fyrir rúmlega tveimur árum síðan. Líkami hans er mögulega byrjaður að hafna handleggjunum og á hann nú á hættu að missa þá.

Guðmundur Felix greindi frá þessu á Facebook.

„Fyrir um tveimur, þremur vikum síðan fór ég að bólgna upp í kringum neglurnar. Þetta var mikil bólga. Síðan fóru neglurnar mínar eiginlega að falla af og þetta leit ekki vel út og við ákváðum að taka vefjasýni.“

Hann hafi því fengið sterasprautur undir neglurnar í von um að það myndi bæta stöðuna.

„Síðan um helgina fór ég að sjá rauða bletti á höndunum og fyrst hafði ég ekki það miklar áhyggjur en síðan á mánudag og þriðjudag varð þetta meira og dreifðara svo í gærmorgun sendi ég teyminu mínu myndir af höndunum og kemur í ljós að ég er heiftarlega að hafna handleggjunum. Sem ég hef gengið í gegnum áður og er eðlilegt á fyrstu vikunum eftir ígræðsluna, en ekki eftir alveg tvö ár.“

Því sé um að ræða töluvert bakslag og gæti farið svo að hann missi hendurnar. Hann er sem stendur á sjúkrahúsi þar sem hann er að gangast undir ónæmisbælandi meðferð. Vonandi gengur sú meðferð upp, en ef ekki þá er hægt að prófa annað ónæmisbælandi lyf. Guðmundur vonar það besta.

„Ég er vongóður að þetta gangi upp og ég komist aftur á sporið en ég hugsaði að þar sem ég hef verið að deila hérna um ferlið frá aðgerðinni og stundum eru fréttirnar slæmar, eins og nú.“