Að­ventu- og jóla­dögurður sem gestirnir missa sig yfir

Jóhann Gunnar Arnars­son dans­kennari og bötler og Kristín Ólafs­dóttir blóma­skreytir og upp­lifunar- og þjónustu­stjóri Þjóð­leiks­húsins verða hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili á mánu­dags­kvöld:

Hjónin Jóhann Gunnar Arnars­son, sem er alla jafna kallaður Jói, dans­kennari og bötler sem þekktur er úr þáttunum Allir geta dansað og eigin­kona hans Kristín Ólafs­dóttir sem er upp­lifunar – og þjónustu­stjóri Þjóð­leik­hússins eru sann­kallaðir fagur­kerar og mat­gæðingar sem leggja mikla á­herslu á að hafa fal­legt í kringum sig og laga ljúffengan mat. Þau byrja snemma að undir­búa jólin og eru iðin við halda í hefðir og siði með nýjungum í bland. Að­ventan spilar stór rullu í lífi þeirra hjóna og eitt af því sem þau hafa mikla á­nægju af er að brytja uppá ljúffengum að­ventu­dögurði fyrir nána vini og vanda­menn.

Sam­heldin hjón sem elska að dekka upp fyrir veislu­höld

Kristín sem er að alla jafna kölluð Kid­dý er menntaður blóma­skreytir og fram­leiðslu­meistari svo hún leggur sig fram af miklum metnaði við jóla­skreytingarnar. Hjónin eru sér­stak­lega sam­heldin. „ Við höfum á­vallt unnið hlutina í sam­vinnu og hugum að hverju smá­at­riði þegar kemur að því að bera fram sæl­kera veitingar og dekka upp há­tíðar­borð sem passar við þemað að hverju sinni,“ segja hjónin Kid­dý og Jói. Þau hafa unnið mjög mikið saman í gegnum tíðina. Þau ráku meðal annars blóma­búð á Akur­eyri og í tæp tíu ár, störfuðu sem ráðs­menn og staðar­haldarar á Bessa­stöðum. Þau hafa unnið mikið fyrir Múla­kaffi í nokkur ár, bæði í Eldar Lod­ge í Út­hlíð og eins skipu­lagt þjónustuna á stóru árs­há­tíðum. Undan­farin sumur hafa þau séð um rekstur veiði­húsanna við Selá og Hofs­á í Vopna­firði.

Að­ventu- og jóla­dögurður fram­reiddur með há­tíðar­brag

„Okkur finnst mikil­vægt að flækja hlutina ekki of mikið og hafa þetta ekki allt­of þungt. Aðal­málið er að hitta fjöl­skylduna og vini. Við viljum helst byrja á súpu, og hafa svo góða blöndu af fiski, kjöti og ein­hvers­konar eggjum til dæmis egg bene­dict eða hrærð egg. Þegar kemur að að­ventunni eru nokkrir hlutir sem eru ó­missandi,“ segir Jói og finnst fátt skemmti­legra að enn nostra við ýmis konar smá­rétti í eld­húsinu. Jói mun meðal annars spreyta sig á hleyptum eggjum, epla- og wasabi salati, þar sem ís­lenskt wasabi er í for­grunni. Hjónin munu fram­reiða glæsi­legan að­ventu­dögurð á­samt spennandi nýjungum sem gestir þeirra munu standa á öndinni yfir. Þau svipta hulunni af að­ventu- og jóla­dögurði ársins og leyfa á­horf­endum að skyggnast í þeirra jóla­siði og hefðir sem hafa mótast í áranna rás.

Þátturinn Matur og Heimili er sýndur alla mánu­daga á Hring­braut klukkan 20.30 og aftur klukkan 22.30.