Að sjúga spenann - og finnast það gott!

Segin saga er að þeir sem predika harðast gegn ríkinu og ríkisafskiptum eru líklegastir til að hafa sogið ríkisspenann ákafast og lengst.

Dæmi um þetta er Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem ekki hefur einungis allar götur frá námslokum haft mánaðarlaunalegt lífsviðurværi  frá ríkinu heldur hefur hann fengið háar fjárhæðir úr almannasjóðum, í gegnum ráðuneyti sem honum eru hliðholl, til að vinna skýrslur eða úttektir um mál. Fyndnasta dæmið er endurskrifun hrunsins í höndum Hannesar. Þeirri rannsókn er eflaust ætlað að losa Davíð og félaga úr löngu morkinni snöru. Þeir virðast trúa því sumir sjallarnir að ef það stendur einhvers staðar á prenti og hægt er að bera \"fræðimann\" fyrir því skuli sjallatoppur saklaus af fokdýrum og langvinnum mistökum.

En Hannes er ekki einn um að sækja í hituna. Til er flokkur sem hefur beinlínis lífsviðurværi af því að sjúga ríkisspenann. Sá hópur fólks er nokkuð iðinn við að bjóða vinum í drykk að hinu sameiginlega spenahlaðborði. Þessi flokkur er Framsóknarflokkurinn. Það kann almennt séð að þykja fremur hæpið að taka einn flokk fyrir í mengi stjórnmálahreyfinga, ekki síst í landi þar sem traust pöpulsins til pólitíkusa er eins vandfundið og iðrun á Kvíabryggju. En þótt ræða megi löngum stundum spillingu sjálfstæðismanna, spillingu samfylkingarmanna, spillingu annarra afla sem hafa um hríð haft ráðandi völd eða ítök, verður að viðurkennast að miðað við sáralítið jafnaðarlegt ársfylgi við framsókn er með ólíkindum að flokknum hafi eins lengi og raun ber vitni síðari ár liðist að sjúga flesta þá spena almannafjár sem hægt er að sjúga.

Í huga þessa, hóps sem hefur lífsviðurværi af því að vera framsóknarmaður, eru flokksfélagarnir fjölskylda. Það eru sjálfsögð gæði þeirra í lífinu að leita ekki út fyrir hópinn þegar kemur að lífsbjörgum og útdeilingu gæða. Þvert á móti telst sá innan hópsins vondur framsóknarmaður sem tekur almannahagsmuni til langframa fram yfir innri fjölskylduhagsmuni til skemmri tíma. Sá sem tæki ytri hagsmuni fram yfir hina innri væri að svíkja sitt eigið blóð! Annars er hætta á hnífasetti í hrygg eins og dæmin sanna.

Tökum nú dæmi af \"venjulegri\" fjölskyldu úti í bæ, þar sem unglingur fer út af sporinu og rænir sjoppu með lambhúshettu á höfði. Löggan nappar drenginn en þótt hann fái skammir þegar hann kemur heim fær hann líka faðmlag. Það væri ljóta fjölskyldan sem myndi ekki standa með fólkinu innan hennar, okkur þykir sjálfsagt að dómharka sé lögð til hliðar þegar okkar eigið blóð er undir. Við gerum hvað við getum til að koma ættingjum aftur á strik - þótt þeir hafi orðið of gráðugir, gerst sekir um andartaks siðleysi eða jafnvel glæp. Meðvirkni tengd tilfinningum okkar gæti orðið til þess að fjölskyldan horfist ekki í augu við alvöruna. En þótt þannig færi myndu mörg okkar telja það hluta af sjálfsagðri mennsku, að taka kærleika og blóðbönd fram yfir harðari viðbrögð. Við myndum kannski lýsa atvikinu útávið einfaldlega sem mannlegum harmleik, kalla eftir friði og samúð frá fjölmiðlum til að takast á við málið. Mannlegur harmleikur er hugtak sem hvítflibbar nota mikið þegar aurinn slettist á skyrturnar þeirra. En sammannlegt er að fjölskyldur eiga að styðja við og sjá um sína. Framsóknarfjölskyldan hefur vanist að sjá um sig og sína. Og það bæði sjálfsgagnrýnislaust og að því er virðist blygðunarlaust.

Munurinn á framsóknarhópi og fjölskyldu  úti í bæ er sá að venjulegar fjölskyldur eru sjaldnast í þeirri aðstöðu að geta sótt í almannafé til að tryggja betri lífsskilyrði án þess að hafa mikið fyrir þeim sjálf.  Framsóknarmenn líta aftur á aðgang að almannafé sem sjálfsagðar lífsbjargir. Það þarf ekki Finn Ingólfsson til að græða vegna forgjafar á almenningi eins og í mælamáli Orkuveitunnar. Finnur virðist \"untouchable\" og furðu margir fjölskyldumeðlimir framsóknar virðast líta á sig sömu augum. Þessi breiða fjölskylduvernd þýðir svo eitt dæmi sé tekið að fremur ólíklegt má teljast að framsóknarmaður stígi nokkru sinni fram til að gagnrýna ráðningu utanríkisráðherra á ungum og reynslulausum aðstoðarmanni. Ólíklegt vegna þess að ráðherra er framsóknarmaður, ólíklegt vegna þess að aðstoðarmaðurinn er framsóknarmaður. Hinn ungi maður hefur unnið trúnaðarstörf fyrir flokkinn,hann situr í stjórn stjórn ungra framsóknarmanna og er kannski líklegur til að ná í nokkur ný atkvæði. Veitir ekki af samkvæmt skoðanakönnunum og það setja framsóknarmenn á oddinn því þá gæti orðið áframhaldandi aðgengi að spenunum. Fyrst koma hagsmunir hinnar síþyrstu framsóknarfjölskyldu. Hagsmunir samfélagsins skipa annað sætið.

Þetta er þó einföldun eins og flest sem skrifað er í stuttu máli, því staðan er í raun töluvert flóknari. Flóknari vegna þess að í huga framsóknarmanna eru hagsmunir framsóknarfjölskyldunnar líka hagsmunir samfélagsins. Þeir sjá ekki út fyrir eigin rann, það er þess vegna sem þeir verða alltaf sárir ef einhver stígur fram og gagnrýnir þá eða vænir um nepótisma og spillingu.  Þegar þeir skilja ekki eitthvað gefa þeir sér að illur persónuhugur hljóti að ráða för hjá þeim sem \"ræðst á þá\". Þeir líta á gagnrýni sem árás. Oft segja þeir þegar upp kemur gagnrýni á embættisverk einhvers þeirra: \"Ég þekki þennan mann, hann er prýðisnáungi.\" Gildir þá einu hvert voðaverkið er sem viðkomandi framdi, fjármálaleg spilling eða annað. Þegar framsóknarmenn hafa lýst því yfir að hinn umtalaði sem kemst í fréttirnar og fær neikvæða athygli sé einn þeirra, að hann sé góður og gildur, þá er hvorki kallað eftir rannsókn né opnu viðbragðsferli til að grafast fyrir um kjarna mála í því skyni að leita lærdóms.  Þeir hrista hausinn yfir því hvað aðrir séu vondir við þá og halda áfram að sjúga almannafjárspenann sinn saman að kvöldi dags. Ropa kannski á eftir. Enda daginn með því að horfa saman á Forrest Gump.

En þetta var ekki alltaf svona. Ég fæddist inn í framsóknarfjölskyldu, mér var kennt að kjósa Framsóknarflokkinn og ég lét það ekki duga heldur vann árum saman á Tímanum líka - með góðu fólki. En mér var kennt í framsóknarbaklandi fortíðarinnar að lífið væri flókið og fjölbreytilegt. Að það væri mikilvægt að hlusta á hvað aðrir hefðu að segja. Mér var líka kennt að fara vel með fé. Einkum þá peninga sem ég á ekki sjálfur heldur hef trúnað við aðra að gæta. Þessi stefna virðist hafa útvatnast nokkuð hjá þeim umbjóðendum framsóknarfjölskyldunnar sem hafa orðið ráðandi í samfélaginu síðari ár. Þökk einum þriðja kjósenda.

Nú er þó svo komið að ný viðmið hafa verið sett í vafasömum ákvörðunum. Skúffufé til Árnanna er eitt, ráðning aðstoðarmannsins annað. Kannski er svo komið að framsóknarmönnum, duglegir sem þeir annars eru að spila á breyskleika þjóðarsálarinnar í seinni tíð, gagnist ekki að lofa því daginn fyrir næstu kosningar að hundruð milljarða verði sótt til vondra útlendinga (eins langt frá framsóknarfjölskyldunni og hægt er að komast) sóttir til að bæta hag þeirra sem þurfa það að eitt að gera að greiða framsókn atkvæði sitt.

Það er komið nóg af retórík, sviknum kosningaloforðum og spenasogi. Það á ekki bara við framsóknarmenn. Pírötum eða öðrum þeim sem væntanlega munu fá umboð eftir eitt ár til að leiða landsmenn áfram inn í nýja tíma verður gefið vökult auga, að ekki fari eins fyrir þeim og framsóknarfamilíunni.

Einfaldlega vegna þess að speninn er að springa. Það er búið að djöflast svo á honum að án breytinga verður júgrið ónýtt eins og annað sem út úr því stendur...

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)