Rifist fyrir framan kúnnann (pistill)


Starfa minna vegna hef ég dvalið í höfuðborginni síðustu daga. Eftir dvöl á \"bissí\" hóteli er ég nokkurs vísari um hvernig staðið er að ferðamennsku hér sunnan heiða. Rúturnar koma að stærri hótelum borgarinnar eldsnemma að morgni. Síðan er stanslaus straumur ferða með erlendu túristana hingað og þangað þar sem leiðsögumenn og bílstjórar hafa mikið um upplifun ferðalanganna að segja. Eflaust kosta þessar ferðir skildinginn.
Með óformlegri athugun, af því að ég hef áhuga á ferðamannabombunni, hef ég horft í kringum mig og séð að úllarnir á hótelinu sem ég gisti á eru spenntir í upphafi ferða. Mælingar benda líka til þess að þeir komi að jafnaði glaðir til baka.


En ég hef þó í tvígang nú um helgina séð íslenska starfsmenn í þessum ferðamannabransa deila innbyrðis fyrir framan erlenda kúnna. Aðra deiluna mátti vel kalla rifrildi sem spratt af því að bílstjóri hafði sofið yfir sig. Ég varð vitni að því að bresk hjón stungu saman nefjum eftir að hafa orðið vitni að rifrildi íslensku starfsmannanna (maður þarf ekki að skilja hvað sagt er, hvernig það er sagt skiptir meira máli). Breska frúin sagði við eiginmann sinn og hristi um leið höfuðið: \"Þetta er mjög ósiðuð framkoma.\"


Eftir höfðinu dansa limirnir.


Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

 

Við höfum sem fátæk þjóð (sem stökkbreyttist á einni nóttu) löngum verið svo upptekin við að ná sem mestum verðmætum í hús á sem skemmstum tíma að góðir siðir eru ekki alltaf í hávegum hafðir á meðan á aflahrotu stendur. Kannski hafa fæstir lagt upp úr mikilvægi þess að finna tíma til að læra betri siði.
Eina leiðin að betri stjórnmála -og viðskiptamenningu er tiltekt í okkar eigin siðaranni. Fyrst að lokinni tiltekt og fyrst að loknum auknum lærdómi vitum við sem kjósendur og neytendur hvenær eitthvað orkar tvímælis, hvenær eitthvað er í lagi og hvenær eitthvað er ekki í lagi.


Það er svo eitt dæmi sé nefnt ekki í lagi að rífast fyrir framan kúnnann.


Og það er ekki í lagi að vera forsætisráðherra, snúa öllu á haus og rífa kjaft við þjóðina eftir að hafa misst trúverðugleika í stærstu frétt árins 2016 og varðar skattaskjól á Tortóla.


Ég er eiginlega alveg viss um að ég myndi hvorki falla í stafi yfir Gullfossi né Geysi ef það sem risi hæst í minningabankanum að ferð lokinni væri að íbúar landsins notuðu hvert tækifæri til að rífast þegar þeir héldu að enginn sæi til. Líkt og það gildir einu hve vel viðrar á kosningadag. Ef siðspilltir þrjótar koma upp úr kjörkössunum verður hér áfram fremur óskemmtilegt að búa.


Án siðbótar mun ekkert gott gerast, enda ekki tilviljun að flestar þjóðir leggja upp úr góðu siðferði. Góðir siðir geta af sér traust og auðlegð. Hvort tveggja er lífsnauðsyn fyrir samfélög. Sem og helstu atvinnuvegi.

Björn Þorláksson.