Lífsreynsla: að lenda í bílslysi

Stundum heyrist að kettir hafi níu líf. Stundum eru sagðar sögur af fólki sem virðist fá fleiri tækifæri en annað fólk, sleppur jafnvel alheilt úr hrikalegum aðstæðum. Sumir tala um æðri mátt og verndarhendur en stundum virðist sem verndinni sé misskipt út af engu öðru vegna heppni eða óheppni. Enda höfum við flest hver lært möntruna sem er eins og hvert annað tæki til að berjast við áföllin og sætta okkur við þau: Þeir sem guðirnir elska, deyja ungir.

Hvað sem slíkum pælingum viðvíkur liggur eitt fyrir. Það er erfitt að sjá réttlætið í því hvernig heppni og óheppni virðist oft misskipt meðal okkar í lífinu.

Barn ferst tveggja ára gamalt af slysförum. Dauði þess skilur eftir sig þyngra verkefni og ósanngjarnara en réttmætt er að leggja á nokkra fjölskyldu. Á sama tíma getur áhættuhegðunarfíkill lifað í 100 ár. Vegir Guðs eru órannsakanlegir, er önnur mantra sem fólk hefur lært til að bregðast við óréttlæti alheimsins. En stundum gleymum við að þakka fyrir þegar betur fer en á horfðist.

Þessu velti ég fyrir mér nú á föstudagsmorgni eftir að líf þriggja fjölskyldumeðlima komst í hættu um miðjan dag í gær. Ég er að skrifa um reynsluna af því að lenda í bílslysi.

Við hjónin eigum átta ára gamlan strák sem æfir sund. Það var mót hjá honum um klukkan 15 í gær í Glerárlaug. Við hjónin tókum okkur klukkustundar hlé frá vinnu til að horfa á drenginn synda.

Ég ók frá sundlauginni að loknu vel heppnuðu móti á ca 45 km hraða á grænu ljósi til suðurs á gatnamótum Glerárgötu og Þórunnarstrætis. Stefnan var sett á ísbúð í miðbæ Akureyrar til að verðlauna drenginn. Allt í einu birtist bíll frá vinstri og stefndi óðfluga inn í okkur. Hann stefndi á drenginn í aftursætinu. Öll meðvitund verður býsna óraunveruleg þegar lífið og þá ekki síst líf barns sem maður á kemst skyndilega í hættu. Ég held ég hafi fyrst reynt að gefa í til að reyna að verða á undan bílnum yfir gatnamótin sem bjargaði einhverju en slapp ekki alveg til. Hinn bíllinn skall með þungu höggi aftast á vinstra bílhornið á gamla og þunga jeppanum okkar, módel 1999. Fljúgandi svell undir. Bíllinn hringsnerist við höggið, ég veit ekki alveg hvað gerðist næst en líkurnar á að við myndum skella á öðrum bílum á gatnamótunum, þarna eru tvær akreinar, líkurnar á að við myndum velta, kremjast út í götuvita eða ljósastaura, líkurnar voru ískyggilega miklar. Kannski var stýri snúið í rétta átt til að hamla á móti, ég veit það ekki en allt fór ótrúlega vel miðað við aðstæður. Við enduðum uppi á umferðareyju, uppi á snjóruðningi. Bíllinn valt ekki, enginn meiddist. En munaði aðeins millisekúndum eða centímetrum að mjög illa færi. Það varð okkur strax ljóst sem og þeim hjálpsömu ökumönnum sem stoppuðu bíla sína og komu hlaupandi til aðstoðar.

Ég fann mikinn feginleika blossa upp þegar bíllinn stoppaði. Einkum vegna þess að drengurinn var alheill í góðum bílstól í aftursætinu. Annað okkar hjóna sneri sér að barninu, hitt hringdi í lögguna. Svo hljóp ég að hinum bílnum sem stóð töluvert frá, eldri kona var á þeim bíl, miður sín en alheil. Hún sagðist hafa ruglast á ljósum. Það gerist. Við föðmuðumst meðan við biðum löggunnar. Báðir bílarnir töluvert skemmdir en skiptir vitaskuld engu máli.

Vitaskuld er tilvalið að nýta svona reynslu til að hamra á því fyrir alþjóð í kjölfar sláandi afhjúpunar Kastljóss á símnotkun atvinnubílstjóra, að ef ég hefði ekki verið 100% með athyglina við aksturinn og ef við öll fjögur sem lentum í þessu slysi í tveimur bílum hefðum ekki verið í bílbeltum hefði getað farið verr, mjög illa reyndar. Athygli bjargar mannslífum. Fyrst og fremst vorum við heppin.

Ég lá andvaka í nótt og hugsaði um áreksturinn. Ég hef áður lent í miklu alvarlegri bílslysum en aldrei áður hef ég lent í árekstri með barn og maka í bílnum. Það var ekki fyrr en í andvökunni sem ég mundi að eitt fyrsta verkið eftir að hafa gengið úr skugga um að allir í mínum bíl væru heilir var að faðma ókunnugu konuna sem varð valdur að slysinu með því að aka yfir á rauðu.  Þegar það rifjaðist upp leið mér betur. Þá gat ég sofnað.

Hvort sem kveikurinn í lífum okkur er langur eða stuttur áttar maður sig á því í lífshættunni að 90% af öllu sem við hugsum og gerum dags daglega er ekkert annað en hégómi. En kærleikurinn er það ekki.  Ég hef sjálfur margítrekað gerst sekur um eigingirni, dómhörku og látið ljót orð falla í kjölfar atvika þegar eitthvað sem ég hef ekki sjálfur stjórn á verður til þess að lífið fer tímabundið úr skorðum. Á ögurstundu, þegar lífshættan blasir við, lærir maður aftur á móti skil kjarna og hismis. Þá sér maður að það er ekkert annað en frekja að hugsa bara um eigin hag. Við höfum sammannlegar skyldur og það er frelsandi fyrir sálartetrið að gangast við þeim.

Í kjölfar reynslu gærdagsins hef ég hugleitt til hvers við lifum? Ein leiðin til að finna tilganginn með þessu brölti er að faðma þá sem brjóta á okkur - a.m.k. þegar þeir brjóta á okkur óviljandi eins og háttaði til um eldri konuna sem fór yfir á rauða ljósinu. Það er frelsandi að faðma þann sem brýtur á manni. Lífið er of stutt fyrir beiskju. Lífið er líka of stutt til að eignast óvini þegar síst skyldi, lífið er of stutt til að láta deilur enda fyrir dómstólum eða viðhalda árum saman, rifrildi, þögn eða þykkju. Það koma stundum upp aðstæður sem kenna okkur að meta þá gjöf sem lífið er. Þegar allt kemur til alls vegur sennilega fátt þyngra en umburðalyndið og kærleikurinn til þess að skapa lífinu gleði og tilgang.

Niðurstaða þessa opna bréfs -  til hvers og eins sem nennir að lesa - er kannski sú að þeir dagar sem góðir sem maður nýtir til að reyna að laða fram betri helminginn í mannshjartanu. Það gæti verið verkefni þessa dags eins og aðra daga.  Reynslan í gær opnaði augu mín fyrir því. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið það tækifæri – að sjá hlutina skýrar...

Það hefði ekki margt þurft að breytast til að líf átta ára gamals drengs hefði farið í súginn í gær vegna þess eins að hann tók þátt í uppbyggilegu íþróttastarfi að loknum skóla og foreldrar hans hugðust styðja við bak hans. Nú í vetrarakstrinum, nú í hálkunni og dimmunni eru mörg mannslíf í hættu jafnt á götum innanbæjar sem á þjóðvegunum úti. Förum varlega, storkum ekki örlögunum. Þökkum fyrir hvern dag sem líður án áfalla. Áfallalausir dagar eru ekki sjálfgefnir.

Vegir lífsins eru órannsakanlegir, varasamir og flughálir. Á vegum lífsins eru bæði rauð og græn ljós. Á vegum lífsins leynist líka oft eitthvað stórfenglegt og fallegt. Eitthvað stærra en svo að maður komi því í orð. En það má alltaf reyna...

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)