Þorgerður katrín tekur afgerandi forystu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, skrifar merka grein í vefritið Kjarnann í dag, 11. Apríl 2018, undir fyrirsögninni „Er víglínan að breytast.“. Í rauninni er þessi grein stórpólitísk tíðindi því hún er fyrstu ummerki þess að vitræn umræða sé hafin um á hvaða vegferð íslenskt samfélag er nú og hvert það stefnir, sérstaklega í samfélagi þjóðanna.


   Tilefni  greinarinnar er eins og Þorgerður segir í upphafi: „ Á síðustu vikum hafa raddir innan Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Miðflokksins heyrst sem vilja Ísland út úr EES samstarfinu. Svipuð sjónarmið hafa verið sett fram innan Framsóknarflokksins á umliðnum misserum. Þessi öfl vilja nú færa víglínuna frá því að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið yfir í umræðu um efasemdir um með EES samninginn. Við því vil ég vara.“


   Hinar tilvitnuðu raddir hafa ítrekað ymprað á því að EES samningurinn sé úreltur, hann þarfnist endurskoðunar, jafnvel uppsagnar. Fá eða engin rök hafa fylgt. Bara fullyrðingarnar einar. Þessi umræða, ef svo skyldi kalla, er farin að minna óþægilega á allt froðusnakkið og lygarnar í aðdraganda Brexit kosninganna á Bretlandseyjum, sem enduðu með þeirri Bjarmalandsför sem Bretar eru rétt að hefja nú og kemur æ betur í ljós að veldur þeim óbætanlegu og ómældu tjóni, ekki aðeins efnahagslegu heldur ekki síður félagslegu og sálarlegu.


   Bretar létu froðusnakka á borð við Nigel Farage leiða sig út í botnlaust fen með blekkingum, lygum og útúrsnúningum. Frægust er líklega lygin um hve margar milljónir Sterlingspunda myndu sparast á viku hverri með úrsögn úr Evrópusambandinu. Jafnvel Farage sjálfur hefur viðurkennt að það var lygi.
   Nú telja ýmsar íslenskar manvitsbrekkur í framangreindum stjórnmálaflokkum vera lag til að blekkja Íslendinga til að segja upp EES samningnum. Allt er það gert í skjóli lítillar og grunnrar umræðu um þau mál eftir að hver stjórnmálamaðurinn eftir annan hefur lagst af öllum þunga gegn umræðu um samband Íslands við Evrópusambandið - og jafnvel umheiminn - undanfarin ár. Enn á að róa á mið fáfræðinnar og fordómanna.


   Þorgerður sýnir mikið hugrekki þegar hún ræðst gegn þessum fjölmenna her fordómanna og fáfræðinnar. Hún gerir um leið skynsamlegar tillögur um hvernig skuli staðið að framhaldi umræðnanna og nýtir sér ofstæki hinna heittrúuðu ESB-andstæðinga sem vilja úttekt og skýrslu og skorar á forsætisráðherra að skipa þverpólitíska nefnd með aðild allra stjórnmálaflokkanna, mannaða hinu færasta fólki, til þess að gera ítarlega skýrslu um málið.


   Katrín Jakobsdóttir er vel greind kona og skal því lýst hér að henni er trúandi til að taka mark á slíkri áskorun, sem sett er fram með svo vel rökstuddu máli, og skipa nefnd eins og Þorgerður Katrín leggur til. Þá má ef til vill vænta þess að umræðan um þessi mál færist úr fari fordóma og blekkinga yfir í vitrænan farveg þar sem byggt verði á þekkingu og reynslu og velferð þjóðarinnar höfð að leiðarljósi, ekki stundarhagsmunir einhvera skammlífra popúlista.

 

rtá