Sigurður segir ekki hægt að samþykkja reikninginn: „við munum aldrei greiða hann“

 Afhending á nýjum Herjólfi hefur dregist en til stóð að afhenda nýjan Herjólf þann 1. júní í fyrra. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra segir að pólska skipasmíðastöðin Crist S.A. sem er með verkið á sínum herðum hafi sent reikning sem ekki sé hægt að samþykkja. Það sé því ekki við Vegagerðina að sakast að Herjólfur sé ekki tilbúinn. Sigurður Ingi sagði í fréttum Stöðvar 2:

„Það hefur dregist úr hömlu af hálfu skipasmíðastöðvarinnar að klára verkið. Við höfum á tímabilinu verið að bæta við verkefnum og breyta. Um öll þau verkefni hefur verið samið sérstaklega við skipasmíðastöðina. Þannig af hálfu Vegagerðarinnar, mati þeirra og sérfræðinga er samningurinn góður og stendur ekkert upp á Vegagerðina.“

Skipasmíðastöðin vill viðbótargreiðslur og þar sem ekki hefur verið greitt hafa dagsektir og daggjöld safnast upp. Reikningurinn hljómar nú upp á 900 milljónir evra.

„Hins vegar hefur nú á endametrunum komið fram krafa af hálfu skipasmíðastöðvarinnar sem Vegagerðin lítur á sem tilhæfulausan reikning og við munum aldrei greiða hann,“ sagði Sigurður Ingi.