NATO-andstæðingur á NATO-fund

NATO-andstæðingur á NATO-fund

Ísland úr NATO, herinn burt hafa sósíalistar kyrjað á Íslandi allt frá árinu 1949. Nú þurfa þeir bara að öskra Ísland úr NATO því herinn er löngu farinn. Herinn yfirgaf Ísland ekki vegna áskoranna og hótanna frá íslenskum sósíalistum. Herinn ákvað bara sjálfur að fara því hann nennti ekki  að vera hérna lengur. Það var engin þörf á herstöð hér á landi vegna breyttrar tækni og fullkomnari vígvéla. Þá sagði herinn bara bless. Ráðamenn hérlendis voru þá svekktir og grátbáðu Bush forseta að leyfa hernum að vera lengur því landsmenn græddu svo vel á hermanginu. En allt kom fyrir ekki. Herinn fór.

 

Sósíalistaflokkurinn gamli, Alþýðubandalagið og Vinstri græn hafa allir verið með kröfu um úrsögn Íslands úr NATO sem sitt helsta stefnumál. Þessir þrír flokkar eru eitt og hið sama. Einungis hafa farið fram nafnabreytingar og kennitöluflakk. Sami grautur í sömu skál. Þrátt fyrir nafnabreytingar hefur stefnan gagnvart NATO ávalt verið hin sama, algerlega óháð kennitölum á hverjum tíma: Ísland úr NATO.

 

Í augnablikinu stendur þannig á að forsætisráðherra Íslands er formaður sósíalistanna sem hafa verið á móti NATÓ frá árinu 1949. Katrín Jakobsdóttir fær enn að gegna þessu embætti í boði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Nú mætir þessi stæki NATO-andstæðingur á leiðtogafund NATO í Brussel í þeirri von að fá að heilsa Trump og jafnvel að standa skælbrosandi með honum og öðrum hernaðarsinnum á stórri mynd sem hún getur svo varðveitt í fjölskyldualbúminu sínu. Full af stolti, má ætla: „Hérna er Trump, hérna er ÉG, hérna er Merkel.“

 

Hvar eru prinsippin? Er búið að kasta öllum grundvallarskoðunum fyrir róða? Getum við ekki vænst þess að Katrín Jakobsdóttir mæti fljótlega á landsfund Sjálfstæðisflokksins til að gleðjast með vinum sínum? Tækifærismennskan í íslenskum stjórnmálum er nú fullkomnuð. Eitt í dag og annað á morgun. Réttur dagsins, stúlka mánaðarins. Hjá Katrínu Jakobsdóttur er Sigurður Ingi Jóhannsson réttur dagsins og Bjarni Benediktsson stúlka mánaðarins í þessu stjórnarsamstarfi.

 

En ekki hvað?  Allt fyrir valdastólana. Sósíalistar hafa aldrei áður fengið að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi og Vinstri græn hafa aldrei áður fengið embætti forseta Alþingis í sinn hlut. Því er unnt að henda öllum prinsippum á haugana. Hvað munar formanninn um að kyngja NATO og Trump í einni svona Brussel-heimsókn?

 

Í fljótu bragði man ég bara eftir einum gegnheilum og prinsippföstum sósíalista í Vinstri grænum, Hjörleifi Guttormssyni.

 

Hvernig skyldi Hjörleifi líða núna þegar hann veit af formanni sínum skælbrosandi framan í Trump á NATO-fundi í Brussel?

 

Rtá.

 

 

Nýjast