Menntagráður falar fyrir fé

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra boðar breytingar á háskólakerfi landsmanna. Ráðherra hyggst beita sér fyrir breytingum sem m.a. miðist gegn því sem virðist viðtekin venja í a.m.k. sumum háskólastofnunum innanlands, að nemendur í háskólanámi sé ekki felldir þótt þeir standi sig illa á prófum. Ástæðan er að skólunum er fjárhagslegt keppikefli að útskrifa sem flesta nemendur.

Þessi mál voru til umræðu í fréttaskýringaþættinum Kvikunni á Hringbraut í gærkvöld. Sögð var saga af nemanda sem er að ljúka mastersgráðu við einn af háskólum landsins án þess að hafa áður lokið stúdentsprófi eða grunnnámi, hvorki BA-gráðu né BS-gráðu. Diploma úr öðru námi var látið duga sem inntökuskilyrði og reynsla metin. Þetta mun ekki einangrað dæmi þótt það sé óvenjulegt. Öruggar heimildir Kvikunnar á Hringbraut herma að mikil vandamál hafi komið upp í lokaverkefnum slíkra útskriftarnema. Sumir hafa ekki fengið þá námslegu og faglegu þjálfun sem ætla mætti að þurfi fyrir meistaragráðu.

Einnig bar á góma í Kvikunni sögu af háskólakennara sem fyrir nokkrum árum fékk svo laklega útkomu hjá nemendum sínum að hann vildi fella mestallan bekkinn. Rektor viðkomandi háskólastofnunar þvertók fyrir það og sagði að kennarinn yrði að gefa lágmarkseinkunn, 5, því fjárveitingar skólans væru háðar því að útskrifa sem flesta nemendur.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði að þetta fyrirkomulag gengi ekki. Hann hefur kynnt inni í ríkisstjórn drög að breytingum sem verða gerðar á háskólaumhverfinu og munu m.a.  skapa hvata fyrir aukin gæði menntunar. Hann hefur fundað með öllum rektorum háskólanna sjö á landinu vegna fyrirhugaðra breytinga. Hann neitar að til standi að sameina háskóla eða fækka þeim.

Illugi bendir á að fyrir 25 árum hafi fjöldi háskólastofnana hér á landi og fjöldi útskrifaðra nemenda með háskólagráður verið töluvert undir því sem þekktist í nágrannalöndum. Mikil og hröð uppbygging fjölmargra háskóla hafi verið brýn og stefnan tekið mið af því. Nú þurfi að setja nýja stefnu. Boðaði ráðherra breyttar áherslur í fjármögnun háskóla. Það sé „ótækt að ekki sé hægt að fella nemendur“. Hann horfi til umbunakerfis þar sem góðri menntun verði hampað. Koma verði í veg fyrir að skólar standi og fallir með fjölda útskrifaðra, burtséð frá gæðum menntunarinnar.

Ítarlegt viðtal við Illuga Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra sem vitnað er til í Kvikunni á Hringbraut má horfa á hér.