Hvellurinn: bless sprengisandslína

 Þrennt stendur upp úr að loknu óveðri ársins sem varð ekki í dag heldur fyrir skemmstu, daginn þegar Íslendingar hlýddu gervallir veðurspánni.

Í fyrsta lagi eru veðurspár orðnar galdratæki til að sjá hið ókomna. Við eigum góða vísindamenn og gott björgunarfólk og við erum hluti af góðri þjóð sem fór varlega eins og sjálfsagt er – sem varð til þess að lágmarka tjón.

Í öðru lagi tóku forráðamenn Rúv verri ákvörðun þá en í illviðri dagsins. Í dag flutti Rúv okkur ágætis aukafréttatíma með mögnuðum myndum og viðtölum klukkan 12 en síðast klikkaði almannaútvarpið á því. Þegar rafmagnið fór þá hér fyrir norðan og virtist sem allt væri að fara á heljarþröm, sat fólk með kertin sín og útvarpið, sem forsjálir höfðu passað að nesta rafhlöðum og þyrsti í upplýsingar. Þá var þörf sem aldrei fyrr á óslitinni beinni fréttaútsendingu um hina mikla atburði. Reyndar er óskiljanlegt að varasjónvarpsrás Rúv skyldi ekki virkjuð fyrir órofa vakt allt frá klukkan 18 í illviðri ársins. Á tímum þar sem deilt er um öryggishlutverk Rúv og stefnu er dapurlegt að sjá stjórnendur grafa undan því með vondum ákvörðunum.

En mestan skell fengu þeir Landsnets- og Landsvirkjunarmenn sem í blóra við andstöðu þjóðarinnar hafa ákveðið að hin svokallaða Sprengisandslína sé mál allra mála. Nú liggur fyrir að hún sundri ekki bara hálendinu. Hún hefði sundrast sjálf í fárviðriinu um daginn og má byggja þá niðurstöðu á legu mastranna og hvernig vindur hefði lagst þvert á þau.

Allt tal um Sprengisandslínu ætti nú að vera úr sögunni. Það eru einfaldlega engar veðurfarslegar aðstæður fyrir slíka hugmynd.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)