Er bankaráð seðlabanka íslands valdalaust silkihúfusafn

Svo virðist sem bankaráð Seðlabanka Íslands sé afskiptalaust um alvarleg málefni bankans. Í umfjöllun um átök Samherja og bankans hefur komið fram að bankaráðið hefur ekki gripið í taumanna vegna þeirra vinnubragða sem viðgengist hafa undir forystu Más Guðmundssonar. Ráðið hefur ekki einu sinni svarað bréfum og erindum sem því hafa verið send vegna málsins.

Spurningar hljóta að vakna um vinnubrögð  bankaráðsins en því er ætlað að hafa eftirlit með starfsemi bankans.

Ekki þykir duga að hafa minna en 7 manna bankaráð og aðra 7 til vara. Aðalmenn eru nú Gylfi Magnússon formaður, Þórunn Guðmundsdóttir, Bolli Héðinsson, Una Óskarsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Jacqueline Mallet og Frosti Sigurjónsson.

Ekkert er vitað um hvort hæfiskröfur eru gerðar til bankaráðsmanna og hverjar þær kunna að vera. Svo virðist sem ekki séu gerðar sérstakar hæfiskröfur til bankaráðsmanna.

Oft hefur skipan fulltrúa í bankaráð Seðlabankans vakið furðu. Stundum hefur valið líkst því að verið væri að senda fólk á hagyrðingamót eða herrakvöld. Trúlega gerir það þá ekkert til ef bankaráðið er hvort sem er áhrifa-og valdalaust.

Hér eru nefnd dæmi um flokksgæðinga ýmissa flokka sem áður hafa verið valdir til setu í bankaráði Seðlabanka Íslands: Björn Valur Gíslason, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Þór Sarí, Halldór Blöndal, Katrín Olga Jóhannsdóttir og Ragnar Arnalds.

Rtá.