Bjóða mogginn og útvarp saga fram í mosfellsbæ

Það þarf ekki að koma á óvart að Sveinn Óskar Sigurðsson sé kominn í framboð fyrir Miðflokkinn en hann leiðir lista flokksins í Mosfellsbæ. 

 Sveinn Óskar hefur (líkt og Sigmundur Davíð og mentorinn Davíð Oddsson) séð illa anda í flestu sem tengt verður við útlönd, nema ef vera skyldi Kambódíu en þaðan er kona hans. Erlendir vogunarsjóðir, Evrópusamvinna, innflytjendur og múslimar. Allt er þetta af hinu illa. 

 Hann hefur í gegnum tíðina barist gegn flestu sem frjálslynt telst.  Hann gæti allt eins verið í framboði fyrir Útvarp Sögu eða Morgunblaðið.

 Í júní 2016 birti Sveinn Óskar í mikilli sigurvímu, pósta um niðurstöðuna í BREXIT kosningum:

„Bretar eru á leið úr ESB. Fyrstu skref að upplausn ESB eru stigin með útgöngu Breta. Það hefur sýnt sig að þó miklu afli sé beitt gegn almenningi lætur lýðræðið ekki að sér hæða en framganga fjölmargra sýnir samt þau öfl sem hafa þarna gríðarlega sterk áhrif á kjósendur.“

Og auðvitað nýtti Sveinn Óskar tækifærið að níða Forseta Íslands vegna stuðnings hans við samvinnu Evrópuþjóða:

„Svo virðist sem þjóðin ætli að kjósa sér ESB áróðursmann sem forseta, sem virðist nú flagga þjóðfánanum af e.k. hentugleika fyrir málstað sinn og ESB.“

Allt er þetta á sömu bókina lært. Þann 3 maí 2017 sendi Sveinn Óskar út mikla pósta og bloggaði á MBL þar sem hann hvatti til þess að VR og Lífeyrissjóði verslunarmanna yrði kollvarpað:

„Um þessar mundir standa illa skipaðir, illa áttaðir og fremur fáfróðir stjórnendur lífeyrissjóða í því að keppa við sjóðsfélaga sína um íbúðir á fasteignamarkaði. ... Gamlar tuggur í þessu efni og þröngsýn afstaða til veraldarinnar, heimóttaleg áhættufælni og vanþekking veldur því ásamt klíkumyndun að fremur er fjárfest í kringum vini og vandamenn en í besta kostinum. Það gerðist einnig fyrir hrun fjármálakerfisins. Það þekkja flestir.

Þarna þarf nýja hugsun, ekki hvatvísa heldur skynsama og áræðna er byggir á kunnáttu en ekki kunningjavæðingu. Þar hafa oft komið sér saman ólíkustu aðilar sem leitt hafa saman hesta sína innan vébanda þessa kerfis og sogið þaðan fjármagn sem súrefni að eigin eldi. Þessu ber að breyta og treysti ég Ragnari Þór til þess að vera sú rödd sem þörf er á innan vébanda verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Tími hinna er liðinn. Nú er tækifæri þitt til að fjárfesta skynsamlega í góðum einstakling með því að kjósa Ragnar Þór. ... [H]onum er fullkomlega treystandi. Hann er gæddur hæfileikum og þekkingu til að setja sig í flókin og viðamikil mál. Hann er með yfirgripsmikla þekkingu á lífeyrismálum og rekstri sem mikilvægt er að hafa þegar kemur að stórri félagasamstæðu sem VR er í raun og sann. Hann er fylginn sér og hefur kosti að bera til að vera leiðtogi, sanngjarn og heill leiðtogi sem virðir jafnrétti í víðum skilningi þess orðs.

Framangreindar tilvitnanir sýna á hvaða leið Sveinn Óskar er.

 

Rtá.