Mislingar mun skaðlegri en talið var: „mislingar hafa svipuð áhrif á nokkrum vikum og ómeðhöndlað hiv-smit hefur á einum áratug“

Samkvæmt nýrri rannsókn sem alþjóðlegur hópur vísindamanna á vegum Harvard-háskóla hefur framkvæmt bendir allt til þess að mislingar séu mun skaðlegri sjúkdómur en áður hefur verið talið.

Morgunblaðið greindi ítarlega frá rannsókninni í dag.

Vísindamennirnir rannsökuðu 77 hollensk börn sem ekki höfðu verið bólusett gegn sjúkdómnum og komust að þeirri niðurstöðu að mislingaveiran eyðir mótefnum sem myndast hafa við fyrri sýkingar, þurrki í raun út ónæmisminnið.

Muna eftir sýklinum

Ónæmi gegn sjúkdómur felur í sér að líkaminn myndar sérhæfða gerð af frumu gegn veirum eða sýklum og hluti þeirra verður að minnisfrumum sem „muna eftir“ og ráða niðurlögum sama sýkils áður en hann nær að valda veikindum á ný.

Vísindamennirnir notuðu tæki sem gerði þei kleift að veiða þúsundir mismunandi mótefna og gátu því búið til mjög nákvæma mynd af ónæmiskerfi barnanna fyrir og eftir mislingasmitið.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að börnin töpuðu að jafnaði um 20% af mótefnum sínum í veikindunum og eitt barn sem veiktist mjög alvarlega tapaði 73% mótefna og var ónæmiskerfi þess komið á svipað stig og hjá nýfæddu barni.

„Það má segja að veiran endurstilli ónæmiskerfið,“ segir Michael Mena smitsjúkdómafræðingur og segir hann börnin þá þurfa að reisa barnir líkamans upp á nýtt og geti þar af leiðandi fengið á ný sjúkdóma sem þau fengu í barnæsku.

„Mislingar hafa svipuð áhrif á nokkrum vikum og ómeðhöndlað HIV-smit hefur á einum áratug,“ sagði Mena enn fremur.

Áður hafa rannsóknir greint frá því hversu skæð mislingaveiran er en flestir sjúklingar ná þó bata. Mislingar geta þó verið banvænir vegna þess að þeir geta leitt til lungnabólgu og heilabólgu.

MMR- bólusetning er talin nánast örugg vörn gegn mislingunum en sérfræðingar hafa grein frá því að ef ónæmiskerfi barna hafi skaðast af völdum mislinga þá gæti þurft að bólusetja þau gegn öðrum sjúkdómum aftur.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir barnasmitsjúkdómalæknir segir að gera þurfi fleiri rannsóknir til þess að skera úr um hvort ráðlagt sé að endurbólusetja börn sem hafa náð sér eftir mislingasjúkdóm.

Hægt er að lesa ítarlegar um rannsóknina í Morgunblaðinu.