Árangurs­rík safa­hreinsun með girnilegu söfunum hennar Kaju

Karen Jóns­dóttir, Kaja eins og hún er á­vallt kölluð, stofnandi og eig­andi Matar­búrs Kaju og Café Kaju býður upp á safa­hreinsun tvisvar á ári sem hefur notið mikilla vin­sælla. Eins og allt það sem Kaja fram­leiðir og gerir er aðal á­herslan á líf­rænt hrá­efni enda rekur Kaja eina líf­rænt vottaða kaffi­hús landsins. Sjöfn Þórðar fór á stúfana og heim­sótti Kaju og fékk hana til að segja okkur nánar frá safa­hreinsuninni sem hún er að bjóða upp, til­urðinni, mark­miðinu og þeim árangri sem hún getur skilað.

Þú hefur verið að bjóða uppá safa­hreinsun, segðu okkur að­eins frá til­urð hennar?

„Eftir að ég veiktist leitaði ég allra leiða til að ná heilsu að nýju. Eftir mikinn lestur og yfir­legu varð ég nokkuð sam­mála þeim kenningum um að hreinsa þurfi líf­færa­kerfið annað slagið. Eftir margar prufur og leit að hreinsun sem hentaði mér, rakst ég á bók sem heitir Sjö daga safa­kúr, en þessi safa­kúr grund­vallaðist meira sem megrun heldur en hreinsun. Ég fór í gegnum þennan safa­kúr nokkrum sinnum og breytti og þróaði þannig að hann hentaði mér og hefði hlut­verk hreinsunar ekki megrunar. “

Eru upp­skriftirnar af söfunum þínar?

„Já, það eru grunn­upp­skriftir en þær eru þó breyti­legar eftir því hvaða hrá­efni fást en ég nota einungis líf­ræn hrá­efni í safana eða ís­lensk sem eru ræktuð villt eða án eitur­efna. Enda er það grunnurinn að hreinsa út er að nota „hreinan“ mat.“

Er gott fyrir líkama og sál að fara í safa­hreinsun og hvers vegna?

„Mér finnst það alveg nauð­syn­legt bæði and­lega og líkam­lega, það á sér svo mikil endur­nýjun stað og síðan er þetta frá­bær leið til að núll­stilla sig, losna við bjúg og bólgur. Þetta auð­veldar fólki líka að hefja og ná tökum á breyttum lífs­stíl.

Hver er til­gangur safa­hreinsunnar?

„Safarnir minnka álag á meltinguna og gefa líkamanum tóm til að hreinsa eitur­efni út úr líkamanum og vinna svo­lítið að við­gerðum.“

Hvernig er prógrammið fyrir safa­hreinsunina?

„Safa­hreinsun er átta daga prógramm sem saman­stendur af þriggja daga undir­búningi og síðan fimm dögum þar sem við­komandi neytir einungis safa, á­vaxta og fræja. Safarnir eru allir með trefjum og eru þeir sam­tals 25 og enginn eins, þar sem hver safi á að hafa sína virkni. Fyrri hluta hreinsunarinnar eru notaðir á­vextir og græn­meti sem hafa losandi og hreinsandi á­hrif og í seinni hlutanum eru hrá­efnin til að byggja upp. Prógrammið fyrir safa­hreinsunina er í boði tvisvar á ári þ.e.a.s. á haustin og vorin.

Segðu okkur að­eins frá því hrá­efni sem þú notar í safana?

„Hrá­efnin eru líf­rænt vottuð, villt ís­lensk og svo ís­lenskt ræktað græn­meti án eitur­efna.“

Skiptir sam­setningin á hrá­efnum máli?

„Já, sam­setningin skiptir miklu máli bæði til að ná góðu bragði, upp­lifun og svo hreinsandi þættinum.“

Þarf að undir­búa sig fyrir safa­hreinsunina?

„Já, það eru teknir 3 dagar í undir­búning þar sem allt kjöt, fiskur, sykur, glúten og mjólkur­vörur eru teknar út.“

Geta ein­hverjar auka­verkanir fylgt því að fara í safa hreinsunina?

„Já, auka­verkanir geta verið mis­jafnir og fara allt eftir því hvar fólk er statt í lífinu og þeim lífs­stíl sem það hefur til­einkað sér. Til mynda þeir sem eru vanir að drekka mikið kaffi eða koffein drykkjum geta fundið fyrir haus­verk og þreytu svo dæmi séu tekin. Enda eru við­brigði að taka út koffein­drykki í fimm daga en vel þess virði. Auka­verkanir eru mjög per­sónu­bundnar og sumir finna strax fyrir fersk­leika bæði í líkama og sál.“

Hvaða árangri getum við náð með safa­hreinsuninni?

„Í sumum til­fellum er hægt að losna við lyf vegna ýmissa líf­stíls­sjúk­dóma en það á einungis við ef fólk heldur á­fram að vera á beinu brautinni. Betri líðan á allan hátt, léttara skap, bólgu minnkun og svo mætti halda á­fram.“

Gaman er að segja frá því að Kaja stefnir að því að vera með boozt­bar í sumar þar sem boðið verður upp á ein­hverja af þeim girni­legu söfum sem til­heyra safa­hreinsuninni. Bragðið á söfunum gefur nýja upp­lifun fyrir bragð­laukana að njóta.

Safa­hreinsun Kaju hefur notið mikilla vin­sælda og hafa þátt­tak­endur lýst á­nægju sinni með upp­lifuninni og sent Kaju gull­mola um líðan sína. Hér má sjá nokkrar fleygar setningar um upp­lifunina:

„Mér líður alveg glimrandi. Finn fyrir mikilli orku, létt­leika og gleði. Svo er ég búin að vera með alveg rosa mikla ein­beitingu og skýr­leika í dag í skapandi vinnu.“

„Mér finnst safarnir svo góðir. Mér líður svo vel bæði í húðinni og í kroppnum. Líkaminn er greini­lega þakk­látur fyrir þessa meltinga­fríu daga.“

„Safarnir koma stöðugt á ó­vart, bragð­góðir og gefandi fyrir líkama og sál.“