Hrefnu þykir óskiljanlegt að berjast þurfi fyrir kjörum ljósmæðra: „gera svo miklu meira en að grípa barnið þegar það skýst í heiminn“

„Ljósmæður. Hversu mikilvæg stétt? Nú er það stutt síðan að ég átti dóttur mína að ég er enn mjög skotin í ljósmæðrunum sem studdu mig í gegnum mín allra allra fyrstu skref í móðurhlutverkinu. Að upplifa mig í öruggum höndum í gegnum fæðinguna og fyrstu dagana heima með þessa litlu dömu sem allt í einu var komið í minn hlut að sjá um.“

Á þessum orðum hefur Hrefna Hrund Erlingsdóttir pistil sinn sem hún skrifar til ljósmæðra og gaf Hringbraut góðfúslegt leyfi til þess að birta.

Gera meira en að grípa barnið þegar það fæðist

„Þessar mögnuðu hendur sem gera svo miklu meira en að grípa barnið þegar það skýst í heiminn, eru til staðar í gegnum aðstæður sem eru manni ókunnugar og oft mjög erfiðar. Hendur sem meðal ótal annars fylgjast með útvíkkun, tengja glaðloft, sækja piparmyntudropa til að draga úr ógleði þegar þú hefur farið hamförum í glaðloftinu, láta renna í bað, gefa nálastungur, heita og kalda bakstra, nudda bak, á meðan þær passa allan tímann upp á og fylgjast með líðan barnsins, hjálpa því að komast út og vanda sig svo við að sauma allt aftur til þess að sem minnst beri á merkjum eftir átökin. Svo ekki sé minnst á alla hughreystinguna, hvatninguna og óbilandi þolinmæði tímum saman.“

\"\"

Mynd frá fæðingu Hrefnu / Aðsend

Hrefna segir heilbrigðiskerfið oft fá yfir sig last fyrir það hversu slæmt það sé en að í gegnum raunirnar sem hún gekk í gegnum við fæðingu dóttur sinnar hafi það verið nákvæmlega eins og það á að vera.

„Þegar Auður Hekla mín var á leiðinni og mamma hennar festist með 9 í útvíkkun lengur en ég vil muna þar sem kollurinn hafði snúist og komst ekki alla leið, þegar ég fékk í fangið hitateppi til að komast yfir skjálftakast er deyfingin loksins fór að virka eftir langan aðdraganda, þegar kollinum var svo snúið rétt og með handafli hjálpað að klára útvíkkun og fæðingu og þegar svo hálf leið yfir mig á salerninu eftir fæðinguna og ég rankaði við mér í faðmi fjölda ljósmæðra sem komu hlaupandi til aðstoðar þá var heilbrigðiskerfið nákvæmlega eins og það á að vera. Fyrir þá upplifun og öryggi verð ég alltaf þakklát.“

Segir hún það vera ómetanlegt að finna fyrir því að öll þekking sé til staðar þegar kemur að því að treysta á aðra. Þá segir hún heimaþjónustu ljósmæðra líka mikilvæga.

„Hvar værum við ef ekki væri fyrir heimaþjónustuna? Að fá aðra dásamlega ljósmóður í reglulegar heimsóknir til þess eins að gæta þess að dóttir mín og við foreldrar hennar náum sem bestum tökum á hlutverkunum okkar. Sem mælir hana og passar að hún dafni rétt og vel, svarar mis gáfulegum spurningum frá óreyndum foreldrum, fylgist með því að brjóstagjöfin fari örugglega rétt og vel af stað, kennir okkur að baða barnið og veitir fræðslu og stuðning inn í þetta stórkostlega verkefni sem nýtt foreldrahlutverk er. Það eru forréttindi sem ég er svo þakklát fyrir að búa við.“

Segist Hrefna ávallt vera í liði ljósmæðra og þakkar hún þeim fyrir allan þann stuðning sem hún hefur hlotið.

„Að það skuli einhvern tímann hafa þurft og muni pottþétt þurfa seinna að berjast fyrir kjörum þessarar stéttar er mér alveg óskiljanlegt. Áfram ljósmæður, ég verð alltaf með ykkur í liði.“