Vinstra slysi afstýrt

Mörgum var stórlega létt í gær þegar Viðreisn sleit tilraun formanns VG til að mynda vinstri og miðjustjórn. Þegar til átti að taka komu Vinstri grænir fram með svo ófyrirleitnar skattpíningarkröfur að miðjuflokkarnir Viðreins og Björt framtíð gátu ekki tekið undir þær. Þá var ágreiningur um sjávarútvegsmál og einnig landbúnaðarmál. Það var því rétt og heiðarlegt að slíta viðræðunum.

Katrín Jakobsdóttir er greinilega mjög svekkt að hafa ekki náð að berja saman þessa stjórn. Hún missti af sögulegu tækifæri til að verða fyrsti forsætisráðherra Íslandssögunar frá VG, Alþýðubandalaginu eða Sósílaistaflokknum. Ljóst er að hún fær ekki forsætisráðherrastólinn ef VG myndar stjórn með Sjálfstæðisflokki.

Þegar betur er að gáð hlaut þetta að fara svona. Vinstri grænir ofreistu sig með skattatillögum sem engin rök voru fyrir og alls ekki nægur vilji var til að styðja. Þá voru þeir ekki til í að gefa eftir varaðndi kerfisbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði sem aðrir hafa viljað kalla fram. Fyrir utan það má nú öllum vera ljóst að Píratar geta ekki myndað stjórn með neinum. Þeir rekast einfaldlega ekki í hópi. Þeir hafa nú afhjúpað það með afgerandi hætti. Orðum þeirra er ekki unnt að treysta; eitt í dag, annað á morgun. Eins og sagt er: Réttur dagsins – stúlka mánaðarins.

Náttfara finnst að Viðreisn og Björt framtíð eigi þakkir skyldar fyrir að hafa bundið enda á þetta vonlausa ferli.

 

Hvað gerist nú? Náttfari telur að líklegir kostir gætu verið þessir:

  1. Katrín Jakobsdóttir gæti reynt að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki og tekið svo einhvern annan flokk inn. Það yrði trúlega Framsókn. Þá yrðu saman komnir þrír flokkar sem stæðu varðstöðu um sérhagsmuni atvinnurekenda í sjávarútvegi og landbúnaði. Engar breytingar yrðu þá leyfðar. Íslenska krónan í öndvegi og andúð í garð Evrópu og útlanda almennt yrði þá í hávegum höfð.
  2. Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylking gætu myndað stjórn sem hefði 35 þingmenn að baki sér. Þá yrðu báðir armar að slá af kröfum sínum sem ekki var gert í stuttum stjórnarmyndunarviðræðum þriggja þessara flokka fyrir skömmu. Niðurstaðan yrði einhver blanda af stefnu flokkanna í erfiðari málunum en samstaða er um mjög margt – jafnvel flest.
  3. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn gætu myndað stjórn með einum flokki í viðbót. Þá þyrfti einhver flokkur að kyngja þeim kaleik að hafa gerst “varahjól” fyrir fallna stjórn sem fékk einungis 40% fylgi í kosningunum og var því kolfelld. Auk þess er Framsóknarflokkurinn klofinn í herðar niður.
  4. Einnig gæti þurft að mynda óhefðbundna stjórn og þá til skemmri tíma með það að markmiði að kjósa mun fyrr, eftir 1 til 2 ár. Þar gæti verið átt við minnihlutastjórn sem varin yrði falli eða þá nokkurs konar þjóðstjórn þar sem 2 ráðherrar kæmu frá hverjum eftirtalinna flokka: Sjálfstæðisflokki, VG, Framsókn, Viðreisn og Bjartri framtíð.  Slíkar stjórnir yrðu neyðarúrræði og hugsaðar til skemmri tíma fram að nýjum kosningum.

Næstu sólarhringar gætu orðið afdrifaríkir og spennandi í stjórnmálum Íslands.