Óþarfi ráðherrann lætur ekkert til sín taka á þingi – meira að segja Tómas hefur meira að segja

Síðan Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, tók sæti á Alþingi fyrir tveimur árum hefur hann einkum vakið athygli fyrir að reka yfirleitt lestina þegar birtar eru upplýsingar um ræðutíma þingmanna. Þá hafa stundum náðst af honum myndir þar sem hann dottar eða beinlínis sefur á þingfundum. Nú hafa verið birtar upplýsingar um ræðutíma þingmanna á fyrri hluta þingvetrar þar sem Björn Leví er í fyrsta sæti eins og oft áður, en hann hefur talað í 675 mínútur á þingfundum það sem af er vetri.

Sá þingmaður sem hefur minnst fram að færa og hefur talað stystan tíma í þinginu er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherrann sem búið var til sérstakt ráðuneyti fyrir með ærnum tilkostnaði við myndun ríkisstjórnarinnar. Oft er talað um hana sem óþarfa ráðherrann enda liggur lítið eftir hana á þessum tveimur árum sem liðin eru frá myndun ríkisstjórnarinnar. Hún virðist hafa svo lítið fram að færa varðandi þá málaflokka sem staðsettir eru í umræddu ráðuneyti að hún hefur einungis talið sig þurfa að fjalla um mál í þinginu í 30 mínútur það sem af er vetri. Nú er svo komið að Tómas A. Tómasson hefur talað lengur en Áslaug en hann á heilar 32 mínútur að baki í ræðustól Alþingis á þessu þingi.

Ekki er þar með sagt að málgleði Björns Leví sé endilega til eftirbreytni. Hann mætti að sönnu gjarnan stytta mál sitt og jafnvel fækka þeim tilvikum sem hann telur sig vera til knúinn að fara í ræðustól þingsins til að útdeila visku sinni. Það er vitanlega alltaf umhugsunarefni hve mikið þingmenn eiga að tjá sig á Alþingi. En gera verður ráð fyrir því að fólk sem hefur haft mikið fyrir því að fá sig kjörið eða endurkjörið á Alþingi hafi þá eitthvað að segja, eitthvað fram að færa, sýni fram á að það hafi verið valið til setu á Alþingi til þess að koma einhverju mikilvægu til leiðar. Eða er ekki svo?

Nú er það þannig að við myndun seinni vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur töldu formenn stjórnarflokkanna þarft að fjölga ráðherrum og hræra í stjórnarráðinu með þeim hætti að það veldur ríkissjóði (skattgreiðendum) margra milljarða viðbótarútgjöldum. Búið var til óþarft ráðuneyti fyrir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem af einhverjum ástæðum var talið þarft að halda inni í ríkisstjórninni. Málefni háskóla og vísinda voru illu heilli tekin út úr menntamálaráðuneytinu og staðsett þarna ásamt iðnaðarmálum. Einkennileg samsetning málaflokka, enda er árangurinn enginn. Ekki þarf ekki að koma á óvart þó talað sé um ónauðsynlega ráðuneytið og óþarfa ráðherrann í þessu samhengi. Þetta fyrirkomulag virðist vera svo vonlaust að ráðherrann nennir ekki einu sinni að taka til máls í þinginu um þá málaflokka sem þarna eru staðsettir, hvað þá annað.

Mikilvægt er að stjórnarandstöðuflokkarnir, sem væntanlega taka við að loknum kosningum, komi sér sem fyrst saman um að fækka ráðuneytum og ráðherrum við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Það er brýnt að taka hressilega til í opinberum rekstri og sporna við áframhaldandi útþenslu ríkisbáknsins. Vitanlega á að byrja á toppnum til að senda skýr skilaboð út í samfélagið. Við blasir að fækka um alla vega einn ráðherra og helst tvo. Rétt er að byrja á að ná samstöðu um að leggja niður óþarfa ráðuneytið og ráðstafa málefnum háskóla og vísinda að nýju til menntamálaráðuneytisins þar sem þessir málaflokkar eiga heima. Ekkert vit er í að slíta keðju menntunar í sundur með þeim hætti sem gert hefur verið. Þá er vel við hæfi að hafa iðnaðarmál með núverandi matvælaráðuneyti enda í báðum tilvikum um framleiðslu að ræða, tengda málaflokka.

Takist samstaða um þá fækkun, sem hér er nefnd, mætti huga að því að leggja félagsmála-og vinnumarkaðsráðuneytið niður. Félagsmálin eiga heima á sama stað og heilbrigðismálin í velferðarráðuneyti. Málefni vinnumarkaðarins gætu fallið vel inn í starfsemi fjármálaráðuneytisins, enda kemur ávallt til kasta fjármálaráðherra við lausn kjarasamninga, bæði á almennum vinnumarkaði og vitanlega gagnvart opinberum starfsmönnum.

Það er kominn tími til að ný ríkisstjórn hefjist handa við að sporna myndarlega við útþenslu ríkisbáknsins og það gerist best með því að byrja á toppnum.

- Ólafur Arnarson