Samfylkingarhraðlestin verður ekki stöðvuð

Á sama tíma og fylgið hrynur af núverandi ríkisstjórnarflokkum bætir Samfylkingin við sig og hefur haldið forystuhlutverki samkvæmt öllum skoðanakönnunum í heilt ár. Ekki er lengur um neinar tilviljanir að ræða. Síðasta Gallupkönnun sýndi fylgi Samfylkingarinnar 28 prósent á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn er kominn niður í rúm 19 prósent, sem er það lakasta sem flokkurinn hefur náð frá upphafi mælinga. Forystuflokkur ríkisstjórnarinnar, flokkur Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, mældist þá með 5,1 prósent fylgi en flokkar þurfa að ná meira en 5 prósentum til að eiga möguleika á að koma fulltrúum á Alþingi. Flokkur forsætisráðherrans er því við það að falla út af þingi. Vinstri flokkur Katrínar er nú við dauðans dyr.

Uppgangur Samfylkingarinnar hófst af alvöru að nýju fyrir rúmu ári þegar Kristrún Frostadóttir tók við formennsku í flokknum. Hún er ung, mælsk og djörf. Svo virðist sem eftirspurn hafi verið eftir slíkum kostum þegar hún tók forystuna í flokknum. Eitt verst geymda leyndarmál stjórnmálanna á Íslandi þessa dagana er að hún naut ráðgjafar tveggja gamalreyndra stjórnmálamanna sem lögðu stefnuna á borðið fyrir hana. Eftir leiðarvísi þeirra hefur svo verið siglt. Enn sem komið er með mælanlegum árangri. Þessir menn eru Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður Samfylkingarinnar og ráðherra, og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti. Hann sat reyndar ekki á friðarstóli sem forseti frekar en á stjórnmálaferli sínum en hann gegndi á sínum tíma formennsku í Alþýðubandalaginu, sem var einn þeirra flokka sem hann starfaði í.

Þessar tvær öldnu kempur eru hoknar af pólitískri reynslu og vita alveg hvernig á að vinna sigra í stjórnmálum. Þeir hafa einnig reynslu af hinu gagnstæða eins og Össur sem hreinlega féll út af Alþingi í kosningunum 2016 þegar Samfylkingin var við það að þurrkast út af þingi. En reynslan týnist ekki.

Samfylking Kristrúnar heldur nú þessari miklu forystu samkvæmt öllum skoðanakönnunum á meðan ríkisstjórnarflokkarnir eru í sárum allir sem einn. Vinstri grænir þó mest enda er flokkurinn við það að falla út af þingi. Forsætisráðherra úr slíkum flokki er næsta ómarktækur. Ríkisstjórnina skortir allan kraft og virðist ekki hafa upp á mikið að bjóða – annað en átök. Kjósendur hafa beðið eftir öðrum kosti og horfa nú til Samfylkingarinnar. Samkvæmt flestum könnunum væru á bilinu 15 til 20 þingmenn stjórnarinnar fallnir. En gleymum því ekki að könnun er annað en kosning.

Gleymum því ekki heldur að þegar kemur að kosningum þá munar um alla ríkisstyrkina sem stjórnmálaflokkarnir hafa skammtað sér af skattpeningum almennings enda hefst þá mikið áróðursstríð. Þar eru ríkisstjórnarflokkarnir sterkir. Það er saga út af fyrir sig. Ljót saga.

Stefna sem ráðgjafar Kristrúnar, formanns Samfylkingarinnar, hafa lagt henni til er hættuleg. Hún snýst um að hækka skatta. Það getur verið til vinsælda fallið á með einungis er bent fingri á aðra en ekki þegar böndin berast að þér. Hverjir eiga að bera skattahækkanir Kristrúnar? Jú, „ríka pakkið“ en hverjir eru þar og hverjir aðrir eiga að borga? Hún vill hækka veiðileyfagjöld myndarlega og auðvelt er að styðja það. Hjálpar til en segir samt svo lítið. Svo vill hún hækka fjármagnstekjuskatta þannig að sparnaður fólks og fyrirtækja verði þveröfugur vegna verðbólguáhrifa. Það mun ekki mælast vel fyrir. En ætlar hún að hækka virðisaukaskatt sem er sá skattstofn sem mest munar um? Eða ætlar hún að hækka skatta á millistéttarfólk? Eða ætlar hún að bæta við einu hátekjuþrepi í tekjuskatti og hvar byrjar það þá? Byrjar það við laun þingmanna upp á hálfa aðra milljón á mánuði eða þarf það að byrja miklu ofar svo hún og aðrir þingmenn/ráðherrar sleppi?

Kristrún verður krafin um svör við þessu.

Það vekur athygli hvernig fylgið færist nú á milli flokka í öllum skoðanakönnunum. Ríkisstjórnarflokkarnir missa gríðarlegt fylgi yfir til stjórnarandstöðunnar þar sem Samfylkingin tekur langmest til sín. Aðrir flokkar munu ekki sætta sig við það og hljóta að láta til sín taka fyrr en síðar. Á það ekki síst við um Viðreisn sem er að mælast með 8 til 10 prósenta fylgi í flestum skoðanakönnunum sem er ekki viðunandi fyrir flokkinn. Flokkur fólksins hefur heldur ekki náð sér á strik. Miðflokkurinn er að taka til sín eitthvað af öfgahægrimönnum sem hafa gefist upp á Sjálfstæðisflokknum. En reynslan sýnir að margir þeirra rata gjarnan heim eins og útilegurollur þegar á herðir.

Í erfiðri stöðu ríkisstjórnarflokkanna hjálpar ekki að fá svo skoðanakönnun um traust á ráðherrum. Þar skrapar Bjarni Benediktsson botninn með ótvíræðum hætti um leið og tveir aðrir ráðherrar flokksins fá snautlega útkomu, þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir, sem hefðu átt að fríska upp á ásjónu flokksins. En kjósendur virðast ekki líta þannig á.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, hefur aldrei fengið eins slæma útkomu úr könnun af þessu tagi og núna.

Fátt bendir til annars en að Kristrún Frostadóttir verði næsti forsætisráðherra strax eftir næstu kosningar, sem verða haldnar þegar núverandi ríkisstjórn gerir sér ljóst að enginn getur unnið sitt dauðastríð.

- Ólafur Arnarson