Fannar er rísandi stjarna sem tekur vonandi forystu á Alþingi fyrir Suðurkjördæmi

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, hefur sýnt það enn á ný að hann er alvöruleiðtogi sem heldur ró sinni við erfiðar aðstæður og forðast ódýrar upphrópanir og hræsnisfullar yfirlýsingar eins og því miður hefur einkennt suma þingmenn og jafnvel ráðherra vegna hamfaranna á Reykjanesi. Flestir átta sig á því við hvaða stjórnmálamenn er átt þegar bent er á yfirborðskennda áráttu til að vekja athygli á sér í fjölmiðlum með innistæðulausum yfirlýsingum. Það er ljótur leikur á grafalvarlegum tímum.

Framkoma Fannars í þeim hamförum sem dunið hafa á Grindvíkingum með þremur eldgosum frá vorinu 2021, og svo þeim náttúruhamförum sem nú standa yfir, hefur vakið verðskuldaða athygli. Hann sýnir fagmennsku og yfirvegun í störfum sínum og virðist vera algerlega laus við þá hvimleiðu athyglissýki sem skín af mörgum ráðherrum og alþingismönnum í fjölmiðlum þessa dagana.

Þegar fram kemur í opinberri umræðu maður sem sýnir af sér svona sterka framgöngu hljóta kjósendur að átta sig á því að brýnt er að fá hann inn á Alþingi og sem fyrst í ríkisstjórn. Það er vöntun á hæfu fólki á þingi. Sár vöntun. Er ekki talað um að u.þ.b. einn þriðji hluti þingmanna geti talist hæfur til að eiga sæti á löggjafarsamkomunni? Fannar Jónasson myndi lyfta meðaltalinu á Alþingi umtalsvert.

Hann starfaði fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Hellu hér á árum áður og þekkir vel til á Suðurlandi. Þá hefur hann gegnt stöðu bæjarstjóra í Grindavík með sóma á miklum óvissutímum og er vel virtur á öllum Suðurnesjunum. Tilvalið er að hann taki forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi sem á að geta verið eitt helsta vígi flokksins ef allt er með feldu. En þannig er það ekki og hefur ekki verið lengi. Núverandi þingmenn flokksins í Suðurkjördæmi eru tæplega líklegir til mikilla afreka og ætla má að Fannar bæri sigur úr bítum í prófkjöri enda nýtur hann nú virðingar á landsvísu vegna starfa sinna.

Í alþingiskosningunum 2021 hlaut Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi einungis 24,6 prósent atkvæða sem getur ekki talist viðunandi í ljósi þess að kjördæmið á að vera eitt helsta vígi flokksins en nær því engan veginn núna. Í kosningunum árið 2007, þegar Árni Mathiesen leiddi lista flokksins í kjördæminu, var fylgið 36 prósent og hefur því hrunið um þriðjung síðan þá.

Með Fannar Jónasson í efsta sæti Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi í næstu þingkosningum væri flokkurinn til alls líklegur. Annars ekki.

- Ólafur Arnarson.