Þjóðarsátt um sama ruglið?

Vonandi nást vitrænir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði á fyrstu tíu vikum ársins eins og allt velviljað fólk hlýtur að vonast eftir. En er líklegt að sú verði niðurstaða viðræðna aðila vinnumarkaðarins? Óvíst er um það.

Sennilega er auðvelt að ná „þjóðarsátt“ um sama óraunsæið og viðgekkst í samningunum árið 2019 sem fengu það virðulega heiti „lífskjarasamningar“ en þeir samningar einkenndist af hreinni uppgjöf samningamanna Samtaka atvinnulífsins. Þá var lagt á borð fyrir atvinnulífið að fallast á styttingu vinnuviku, lengingu orlofs og hækkun launa langt umfram hagvöxt og bætta afkomu atvinnufyrirtækja landsins. Menn virðast hreinlega ekki hafa áttað sig á því tímanlega hvílíkt óráð þetta var. En upplifðu afleiðingarnar jafnt og þétt þegar fyrirtæki stóðu frammi fyrir orðnum hlut og þurftu að takast á við þau vandamál sem stytting vinnuviku, lenging orlofs og of miklar launahækkanir höfðu í för með sér. Þeir sem gátu hækkað verð á vörum sínum og þjónustu gerðu það en aðrir tóku út sínar þjáningar. Afleiðingin var kunnugleg fyrir fólkið í landinu: Verðbólga fór á skrið, vextir stórhækkuðu og ráðstöfunartekjur fólks minnkuðu.

Þetta hefur því miður gerst allt of oft áður á Íslandi. Heitir þetta á mannamáli að pissa í skóinn sinn sem þykir almennt ekki gott til eftirbreytni, í öllu falli ekki um miðjan vetur.

Meðal margra forráðamanna fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins byrjaði að krauma mikil óánægja og menn nöguðu sig í handarbökin fyrir að hafa látið samninga af þessu tagi fara svona í gegn. En við því var ekkert að gera annað en horfa fram á veginn. Reiði beindist gegn helstu samningamönnum Samtaka atvinnulífsins, þeim Halldóri Benjamín Þorbergssyni og Ásdísi Kristjánsdóttur. SA hafa aldrei látið fólk fara með látum frá sér heldur ýtt því kurteislega út. Það gerðist og Halldór fékk forstjórastöðu í skráðu fyrirtæki á markaði og Ásdís bjargaði sér tímanlega yfir á pólitíska sviðið og er nú bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Væntanlega mun hún sýna meiri ráðdeild í störfum sínum þar en hún gerði sem hagfræðingur SA.

Samtök atvinnulífsins koma nú til viðræðna með nýtt fólk í stafni. Sigríður Margrét Oddsdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra Samtakanna. Hún hefur prýðilega menntun og á góðan feril að baki í atvinnulífinu, m.a. hjá Símanum og sem forstjóri Lyfju. Ekkert er nema gott um það að segja. Hún verður hins vegar að gera sér ljóst að nú er hún komin inn á allt annan leikvöll þar sem grimmu ljónin ganga laus. Hún átti ekki góða innkomu inn í deilu við flugumferðarstjóra í desember þegar hún talaði um að hún myndi „gefa þeim kartöflu í skóinn“. Sigríður hlýtur að hafa lært af þessu hallærislega útspili að hvergi er stemmning fyrir aulahúmor af þessu tagi þegar fjallað er um alvarleg mál eins og stöðu á vinnumarkaði.

En geta menn vænst þess að Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir komi til samninga af heilum huga? Vonandi. Það veltur þó verulega á því hvaðan þau þiggja ráð og leiðsögn. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, er ráðagóður maður. Vonandi hafa Ragnar Þór og Sólveig Anna lært sitt af verðbólgusamningum – afleiðingum samninga sem engar innstæður eru fyrir. Hlusti þau ekki of mikið á herskáustu ráðgjafana í sínu liði – þá er von.

Margir vilja einnig sjá farsælan formann Samtaka atvinnulífsins, Eyjólf Árna Rafnsson, stíga inn með áberandi hætti. Hann er laginn maður sátta.

Verum bjartsýn þrátt fyrir allt!

Gleðilegt ár.

- Ólafur Arnarson