Vilja ragnar þór og vilhjálmur valda skaða?

Lífeyrissjóðir landsmanna hafa verið til umræðu undanfarið eftir að snillingum í blaða- og fréttamannastétt tókst að komast að þeirri niðurstöðu að eingöngu lækkun hlutabréfaverðs Haga og Icelandair hefði áhrif á afkomu sjóðanna en hækkun hlutabréfaverðs annarra fyrirtækja hefði engin áhrif, þó hækkunin sé miklu meiri.

Ekki þurfti lengi að bíða þess að sjálfskipaðir sérfræðingar spryttu fram að gefa þjóðinni álit sitt á lífeyrissjóðunum. Lítum á tvo þeirra. Formenn tveggja verkalýðsfélaga, VR og Verkalýðsfélags Akraness, virðast hafa þá sérstöku köllun að reyna hvað mest þeir geta að skaða hagsmuni félagsmanna sinna með því að rógbera og níða lífeyrissjóði þeirra.

Skagamaðurinn hefur hvatt sér hlóðs til að fjargviðrast yfir því að í fyrra hefði ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða verið núll og var mjög hneykslaður. Hann hefur líklega verið sofandi blessaður í öll skiptin sem fréttir voru fluttar af hækkandi gengi krónunnar og af áhrifum þess á t.d. sjávarútveginn og ferðaþjónustuna. Staðreyndirnar eru að góð ávöxtun varð af erlendum eignum, en þar sem gera verður upp í íslenskum krónum þurrkaðist sá árangur út – vegna gengishækkunar krónunnar!

Hverjar eru annars forsendur Vilhjálms til að stíga fram með kröfur um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu? Hann skilur ekki einu sinni helstu grundvallaratriði í starfsemi sjóðanna, fer ítrekað með rangt mál og virðist ánægðastur ef hann finnur eitthvað sem gæti skaðað þessa sjóði félagsmanna hans.

Ekki er kollega hans skárri, sá sem kosinn var formaður í stærsta launþegafélagi landsins með atkvæðum 10% félagsmanna. Ragnar Þór birtist ítrekað sem „sérfræðingur“ í málefnum lífeyrissjóðanna, fer með fleipur og róg og reynir hvað hann getur til að skaða hagsmuni félagsmanna sinna.

 

Hvaða þekkingu eða reynslu hefur hann til að koma þannig fram? Hann mun hafa staðið sig vel sem ráðgjafi við sölu reiðhjóla og í fararstjórn í hjólreiðaferðum. Ekki fara sögur af öðrum afrekum hans.

 

Rtá