Vilja hætta viðskiptum við KPMG og gagnrýna skýrslu um Borgarskjalasafn sem ófaglega

Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu í borgarráði um að borgin hætti að skipta við endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið KPMG, en borgin hefur keypt ýmsa þjónustu frá fyrirtækinu fyrir um 100 milljónir frá árinu 2018, mest á síðasta ári, tæpar 42 milljónir.

Upplýsingar um umfang viðskipta borgarinnar við KPMG koma fram í svari skrifstofu fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar við fyrirspurn frá Flokki fólksins í borgarráði.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn og áheyrnarfulltrúi í borgarráði, gerði eftirfarandi bókun á fundi ráðsins á fimmtudag

„Frá 2018 hefur KPMG fengið um 100 milljónir fyrir ýmis verkefni. Hæsta upphæðin er 2022 tæpar 42 milljónir. Önnur fyrirtæki eru ekki á spena hjá borginni í jafnmiklum mæli og KPMG samkvæmt svari. Fulltrúi Flokks fólksins er hugsi yfir þessum viðskiptum sérstaklega í ljósi nýlegrar skýrslu um niðurlagningu Borgarskjalasafns þar sem hluti skýrslunnar fór í að níða skóinn af borgarskjalaverði sem hefur á löngum ferli sínum sýnt framúrskarandi fagmennsku í starfi. Borgarskjalavörður hafði m.a. kjark og þor að gera frumkvæðisathugun á braggamálinu í óþökk meirihlutans þar sem fram kom í niðurstöðum að farið hafði verið á svig við lög. Flokkur fólksins telur að skýrsla um Borgarskjalasafn hafi verið „pöntuð“ eins og stundum er sagt. Það er þekkt fyrirbæri. Fyrirtækinu eru gefnar ákveðna forsendur til að vinna út frá, sem leiða á leynt og ljóst að ákveðinni niðurstöðu og fær fyrir ríflega summu og auðvitað áframhaldandi verkbeiðnir. Umrædd skýrsla sem kallast Ráðgjöf vegna skjalastjórnunar kostaði 8.495.547 (2022) plús 1.741.110 (2023) Alls 10.236.657.

Sem sé, rúmar tíu milljónir fyrir að leggja til að saga Reykjavíkur verði falin.“

Þá lagði Kolbrún fram eftirfarandi tillögu á fundinum:

„Flokkur fólksins leggur til að hætt verði að skipta við KPMG og látið verði reyna á útboð eða farið í verðkönnun, sé talið nauðsynlegt að kaupa vinnu af þessu tagi. Af yfirliti yfir viðskipti við KPMG er nokkuð ljóst að aðkeypt þjónusta við þetta fyrirtæki er komin úr böndum.

Á síðasta ári fékk fyrirtækið 41,5 milljón fyrir greiningarskýrslur/verkefni án þess að skýringar liggi fyrir um nauðsyn þeirra. Frá 2018 hefur KPMG fengið um 100 milljónir frá Reykjavíkurborg fyrir skýrslur sem sjá má í yfirliti sem fulltrúi Flokks fólksins fékk sem svar við fyrirspurn sinni um viðskipti borgarinnar við ráðgjafarfyrirtæki. Fulltrúa Flokks fólksins er ofboðið ekki aðeins bruðlið sem hér á sér stað heldur einnig vegna dæma um að að greiningaskýrslur frá KPMG séu ekki taldar trúverðugar. Vísað er m.a. í skýrsluna Ráðgjöf vegna skjalastjórnunar (niðurlagning Borgarskjalasafns). Sú skýrsla er talin innihalda rangfærslur og dylgjur í garð borgarskjalavarðar sem dregur úr trúverðugleika hennar að mati margra sem tjáð sig hafa um gagnið. Héraðsskjalavörður í Kópavogi hefur lýst svipaðri skoðun á úttekt sem KPMG hefur gert fyrir bæjarstjórnina á menningarstofnunum bæjarins og segir að hann „vænti þess að bæjarfulltrúar í Kópavogi hafi til að bera skynsemi og ábyrgðartilfinningu til að stíga engin óheillaspor á grundvelli þessarar skýrslu.“

Í samtali við Hringbraut segist Kolbrún vera ofboðið, um ótrúlegar upphæðir sé að ræða og það til eins fyrirtækis.

„Svo er ég náttúrlega mjög ósátt við þessa skýrslu um skjalavörslu og Borgarskjalasafnið og að verið sé að borga peninga fyrir skýrslu sem ekki bara ég heldur margir aðrir hafa tjáð sig um að sé ófagleg,“ segir Kolbrún.