Viðreisn hafnar krónunni með gildum rökum

Eitt af meginmálum Viðreisnar fyrir kosningar var að koma með lausnir á gjaldmiðlavanda Íslendinga. Viðreisn þorði að viðurkenna að krónan blaktir eins og lauf í vindi og getur ekki þjónað okkur til frambúðar.
 
Mörgum stuðningsmönnum Viðreisnar hefur gramist að flokkurinn skuli ekki hafa lagt meiri áherslu á gjaldmiðlamálið í ríkisstjórnarsamstarfinu.
 
Formaður Viðreisnar hefur nú brugðist við þeirri gagnrýni með skeleggri grein sem birtist í Fréttablaðinu í liðinni viku. Þar áréttaði hann stefnu Viðreisnar með afgerandi hætti.
 
Benedikt Jóhannesson sagði í grein sinni að krónan væri hemill á heilbrigð viðskipti, hún leiddi til óstöðugleika, byggi til sveiflur og orsakaði hærri vexti en í viðmiðunarríkjum. Hann sagði einnig að Viðreisn hafi bent á myntráð til þess að festa gengi krónunnar en mörg ríki hafi nýtt sér slíka lausn í áratugi, flest sem áfanga til að taka upp evru.
 
Svo spurði Benedikt: \"En má fjármálaráðherra hafna krónunni? Fjármálaráðherrar í nítján Evrópulöndum hafa þegar hafnað sínum miðli fyrir evruna. Enn fleiri nýta sér evruna án beinnar aðildar eða tengja gjaldmiðil sinn beint við evru. Já, fjármálaráðherra ber skylda til að leggja til þann kost sem er farsælastur fyrir Íslendinga.\"
 
Þessi yfirlýsing ráðherrans hefur algerlega ært krónuvini og aðra einangrunarsinna þó hún hefði ekki átt að koma neinum á óvart miðað við stefnu Viðreisnar.
 
Þannig talaði formaður VG um það að blaðagreinin hlyti að valda \"uppnámi\" í ríkisstjórninni. Það var fyndið að heyra Katrínu Jakobsdóttur tala þannig í ljósi þess að hún sat í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem sótti um aðild að ESB með stuðningi VG sem þó var á móti aðild allan tímann! Til upprifjunar má geta þess að Katrín var menntamálaráðherra þeirrar stjórnar. Engar markverðar umbætur liggja eftir hana í þeirri ríkisstjórn.
 
Þá spurði Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknar, í blaðagrein hvort Viðreisn væri sætt í ríkisstjórninni eftir yfirlýsingar formanns Viðreisnar. Von að hún sé hissa á yfirlýsingum Benedikts því framsóknarmenn eru yfirleitt ekkert uppteknir af því að fylgja markaðri stefnu.
Það sem Benedikt sagði í greininni var í fullu samræmi við grundvallarstefnu flokksins og þurfti ekki að koma á óvart.
 
Í hentistefnuflokki eins og Framsókn skilur fólk ekki stefnufestu enda aðhyllist flokkurinn hentistefnu.
 
Grein formanns Viðreisnar veldur engu \"uppnámi\" í ríkisstjórninni. Það kom best í ljós þegar sjónvarpið náði tali af forsætisráðherra þar sem hann var að skemmta sér við að horfa á kvennafótbolta í Hollandi.
 
Bjarni Benediktsson lætur ekkert trufla sig frá forgangsmálum sumarsins sem eru fótbolti, golf og laxveiðar.
 
 
rtá.