Verklausir og slakir þingmenn fari

Það er útbreidd skoðun að Alþingi Íslendinga hafa ekki verið jafnilla skipað í áratugi. Þeir sem fylgjast vel með stjórnmálum á Íslandi muna ekki eftir því að þingmenn hafi leyft sér áður að sýna þinginu þá lítilsvirðingu að stunda háskólanám samhliða þingsetu eins og sjö nafngreindir þingmenn gera. Þykir það benda til þess að viðfangsefni þingmanna séu hvorki nægileg né áhugaverð úr því þeir leyfa sér framkomu af þessu tagi.

Svo virðist sem þingstörfin og stjórnmálaátökin hvíli á herðum fárra. Einkum formanna og helstu forystumanna flokka í stjórn og stjórnarandstöðu. Margir hinna óbreyttu virðast hafa lítið vægi á vettvangi þingsins, fá ekki næg verkefni til að takast á við eða njóta ekki trausts formanna flokkanna eða félaga sinna í þingflokkunum. Nú er svo komið að almenningur þekkir varla nema helming þingmanna. Hinir eru ýmisst týndir og fjarri vegna náms eða annarra viðfangsefna úti í bæ eða þá að þeir blanda sér lítið sem ekkert í störf þingsins.

Í ljósi þessa verður að ætla að í alþingiskosningunum eftir rúmt ár verði mjög miklar breytingar í þingliðinu. Bæði vegna þess að ætla má að miklar tilfærslur verði milli flokka á fylgi og eins vegna hins að flokkarnir hljóta að sjá sóma sinn í því að losa sig við verklitla og áhrifalausa þingmenn sem ekki leggja neitt markvert til mála. Sumir þeirra hafa fengið mikil tækifæri til að láta til sín taka en klúðrað þeim eins og ráðherrar beggja flokka eru dæmi um.

DV gerði að umtalsefni hve verklitlir sumir þingmenn hafa verið í vetur. Blaðið tók saman hve mikið þeir hafa talað í þinginu síðustu 5 mánuðina. Þá kemur á daginn að sumir hafa verið ósýnilegir og nær alveg týndir í allan vetur. Þórunn Egilsdóttir hefur talað úr ræðustól Alþingis í 33 mínútur það sem af er vetri en þrír aðrir stjórnarþingmenn hafa látið sér nægja að leggja eitthvað til mála úr ræðustól Alþingis í 50 mínútur hver frá byrjun september á síðasta ári. Það eru Líneik Anna Sævarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir og Haraldur Einarsson.

Umfjöllun DV leiddi til þess að Náttfari horfði yfir allt þingiliðið og velti því fyrir sér hverjir núverandi þingmanna ættu að láta staðar numið að ári og hverfa til annarra starfa en þingmennsku eftir kosningar vorið 2017. Þeir sem hér á eftir eru taldir upp hafa annað hvort verið við nám og ekki mátt vera að því að sinna þingstörfum eða verið nær ósýnilegir af öðrum ástæðum. Nokkrir þeirra sem hér eru nefndir hafa fengið mikil tækifæri og klúðrað þeim, þar á meðal ráðherrar.

Einnig er ljóst að ýmsir þeirra sem hér eru nefndir munu alls ekki ná endurkjöri þó þeir gefi kost á sér:

Frá Samfylkingu: Ólína Þorvarðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Katrín Júlíusdóttir sem hefur þegar tilkynnt um að hún muni ekki halda áfram. 

Frá Framsókn: Karl Garðarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir og Haraldur Eiríksson sem öll hafa verið við nám í stað þess að sinna þingstörfum. Auk þeirra yrði ekki söknuður að brotthvarfi eftirtalinna framsóknarmanna úr þinginu:  Ásmundur Einar Daðason, Vigdís Hauksdóttir, Eygló Harðardóttir, Frosti Sigurjónsson, Sigrún Magnúsdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir. Alls er um 12 framsóknarmenn að ræða af 19 sem nú eiga sæti á Alþingi.

Frá Vinstri grænum: Lilja Rafney Magnúsdóttir og frá Bjartri framtíð: Róbert Marshall og Páll Valur Björnsson.

Frá Sjálfstæðisflokki mættu eftirtaldir þingmenn gjarnan hætta eftir að hafa verið næsta verklausir allt kjörtímabilið eða þá tapað öllu trausti gagnvart kjósendum: Vilhjálmur Árnason sem hefur verið við lögfræðinám í staðinn fyrir að stunda þingstörfin, Valgerður Gunnarsdóttir, Illugi Gunnarsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Elín Hirst, Sigríður Andersen, Birgir Ármannsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson og Haraldur Benediktsson sem ætti frekar að bjóða sig fram fyrir Framsóknarflokkinn. Samtals eru  hér nefndir 10 þingmenn Sjálfstæðisflokksins og alls frá öllum flokkum 28 þingmenn, tæpur helmingur.