Verður uppstokkunin í ríkisstjórninni mun víðtækari?

Breytingar verða á ríkisstjórninni á morgun þegar ríkisráð kemur saman til fundar. Í marga mánuði hefur legið fyrir að Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, komi inn í ríkisstjórnina eftir að hafa verið haldið utan við hana í 18 mánuði. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt fátt nákvæmlega um þessa aðgerð og því hafa heyrst alls kyns hugmyndir og vangaveltur um breytinguna. Flestir virðast telja að um einfalda breytingu verði að ræða þannig að Guðrún taki við embætti dómsmálaráðherra af Jóni Gunnarssyni sem hverfi þá úr stjórninni.

En er þetta alveg svona einfalt eða sjálfsagt? Vert er að staldra við þá staðreynd að fylgi Vinstri grænna hefur verið í frjálsu falli samkvæmt öllum skoðanakönnunum alveg frá því síðasta haust. Samkvæmt nýjustu könnun Gallups njóta Vinstri græn einungis stuðnings 5,6 prósenta kjósenda. Þeir eru með 3 ráðherra í núverandi vinstri stjórn. Þannig er fylgið að meðaltali á bak við hvern ráðherra einungis 1,87 prósent samkvæmt þessari nýju könnun Gallups en hún var mjög stór og því vel marktæk.

Vinstri græn hafa tapað meira en helmingi fylgis frá síðustu kosningum í september 2021. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað fylgi en fylgistapið er raunar mjög lítið miðað við fylgishrun Vinstri grænna. Í ljósi þess má spyrja hvort ekki væri eðlilegt að Vinstri græn misstu einn af þremur ráðherrum sínum yfir til Sjálfstæðisflokksins. Ef til dæmis Guðmundur Ingi Guðbrandsson viki úr ríkisstjórninni fyrir sjálfstæðismanni þá gæti Guðrún tekið við stöðu félags-og vinnumarkaðsráðherra og Jón Gunnarsson áfram gegnt embætti dómsmálaráðherra. Í ljósi framangreindra staðreynda hlýtur það einfaldlega að vera eðlileg krafa að Sjálfstæðisflokkurinn fái auki vægi við ríkisstjórnarborðið.

Vert er að hafa í huga að Guðrún Hafsteinsdóttir hefur reynslu af málefnum vinnumarkaðarins en hún hefur bæði átt sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins, sem formaður í 6 ár og auk þess meðstjórnandi, og einnig í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins um árabil. Hún býr því yfir mikilvægri reynslu sem ætti að nýtast ef til kæmi. Komi ekki til breytinga á ráðherrafjölda flokkanna er vert að hafa í huga reynslu Guðrúnar úti í atvinnulífinu áður en gerðar eru breytingar. Hún hefur verið stjórnandi í íslensku iðnfyrirtæki í 25 ár og formaður Samtaka iðnaðarins í sex ár og átt sæti í ýmsum öðrum stjórnum. Hún er því tilvalin til að gegna stöðu iðnaðarráðherra og ætti vitanlega að taka við því embætti af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem hefur aldrei starfað neitt úti í atvinnulífinu. Áslaug datt inn á Alþingi um leið og hún lauk prófi frá lagadeild Háskóla Íslands og býr því ekki yfir neinni reynslu úr atvinnulífinu. Áslaug ætti að víkja fyrir Guðrúnu þannig að Jón Gunnarsson geti haldið áfram sínum öflugu störfum á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Einhverjum innan Sjálfstæðisflokksins hefur dottið í hug að reyna að ýta Guðlaugi Þór Þórðarsyni út úr ríkisstjórninni á þessum tímamótum. Hann hefur engan áhuga á öðrum störfum og vill halda áfram enda öflugur stjórnmálamaður. Varla hvarflar það að Bjarna Benediktssyni að hreyfa við manni sem hlaut 40 prósent greiddra atkvæða í formannskjöri á fjölmennasta landsfundi Íslandssögunnar í fyrrahaust. Slíkt skref myndi leiða til klofnings Sjálfstæðisflokksins í herðar niður. Ekki þarf að ætla formanni flokksins slíka glámskyggni.

- Ólafur Arnarson