Tími andrésar

Andrés Magnússon, sem birtir stundum ólundarleg skrif um fjölmiðla í Viðskiptablaðinu, virðist ekki kunna á klukku. Hann veit alla vega ekki hvað tímanum líður.

Náttfari nennir almennt ekki að lesa það sem Andrés þessi hefur fram að færa en honum var bent á að í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins hafi ólund hans verið með mesta móti sem lýsti sér í margs konar vanlíðan út af Hringbraut. Miðillinn virðist trufla Andrés talsvert, meðal annars það að á vef Hringbrautar sé skrifað undir bæði skáldanafni og nafni dálkahöfundarins Náttfara.

Ekki kemur fram í skrifum hans að það trufli viðkvæma siðgæðisvitund hans að í Viðskiptablaðinu er skrifað reglubundið undir nöfnum eins og Huginn & Muninn, Týr og Óðinn. Auk þess er það útbreidd skoðun að nafnið Andrés Magnússon sé lymskulegt skáldanafn.

Ekki ætla ég að fullyrða neitt um það hvort Andrés Magnússon sé yfir höfuð til eða hvort tilgátan sé rétt um að hér sé um skádanafn að ræða. Sé svo þá finnst mér það frekar ófrumlegt. Þannig er skáldanafnið Stella Blómquist miklu frumlegra. Efnið sem birtist undir því nafni er einnig miklu áhugaverðara en hjá þeim sem skrifar undir nafninu Andrés Magnússon. Myndin sem birtist með skrifunum er einnig dularfull. Svo virðist sem hér sé um að ræða mynd af Austur-Þýskum flugumanni sem hefur verið lagaður til með nýrri hárkollu, auk þess sem brosi hefur verið þröngvað inn á myndina.

Í umræddum skrifum víkur Andrés þessi að Náttfara og segir: “Þá er ekki átt við nafnlausa penna á borð við Náttfara, sem reglulega leggur út á ritvöllinn síðla nætur (oft þreyttur og reiður sýnist manni) ………….”

Þarna er verið að gefa til kynna með afgerandi hætti að Náttfari sinni skrifum sínum um nætur þegar heiðvirt fólk er í fastasvefni. Ætlast er til þess að lesa megi út úr því að þá sé hann væntanlega ekki í góðu jafnvægi og trúlega undir óheppilegum áhrifum. Lesendur Andrésar eiga að fá á tilfinninguna að þarna fari óreglusamur og óábyrgur maður.

En hverjar eru staðreyndir máls?

Náttfari skrifar á venjulegum tíma og birtir greinar sínar á hringbraut.is á eðlilegum vökutímum fólks. Allt tal um annað snýst um að reyna að gera skrifin tortryggileg á ómerkilegan hátt. 

Andrés þessi ætti að spara sér stóryrðin þegar hann fjallar um vinnubrögð annarra fjölmiðla. Honum ferst ekki að reiða hátt til höggs.

Lítum nú á tímasetningar pistla Náttfara á hringbraut.is síðustu 2 mánuði:

 

4. 2. Kl. 13:19

22. 2. Kl. 18:00

18.1. Kl. 17:49

11.1. Kl. 21:13

4.1. Kl. 9:34

29.12. Kl. 16:04

27.12. Kl. 16:43

24.12. Kl. 14:33

16.12. Kl. 19:03

11.12. Kl. 21:06

3.12. Kl. 18:40.

Jæja, tímasetningar þessara 11 tilvika tala sínu máli.

Ómerkileg tilraun Andrésar fellur um sig sjálfa. Hann ætti nú að segja minna um “lygar og fals” og taka til í eigin garði.

Hann hefði gott af því – hver sem hann er.